Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Leggur til gjafsókn í máli vegna andláts ungrar konu

15.09.2021 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Umboðsmaður alþingis hefur lagt til við dómsmálaráðherra að foreldrum verði veitt gjafsókn í skaðabótamáli gegn íslenska ríkinu vegna andláts dóttur þeirra í kjölfar afskipta lögreglu af henni. Guðrún Haraldsdóttir, móðir konunnar, staðfestir í samtali við fréttastofu að þau hjónin undirbúi skaðabótamál.

Telja lögreglu ekki hafa beitt réttum aðferðum

Fréttastofa fjallaði um málið á sínum tíma. Hekla Lind Jónsdóttir var 25 ára þegar hún lést eftir afskipti lögreglu. Foreldrar hennar, sem tjáðu sig í viðtali við Kompás á Stöð 2, telja að lögregla hafi ekki beitt réttum aðferðum og að of langur tími hafi liðið þar sem dóttir þeirra var látin afskiptalaus í hjartastoppi.

Hekla var í geðrofi þegar lögregla var kölluð að stað þar sem hún og aðrir voru í neyslu. Hekla var farin burt þegar lögregla kom en lögreglan elti hana uppi og batt á höndum og fótum. Aðstandendur Heklu segja að svo virðist sem að lögreglan hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að róa hana niður. Foreldrar og aðstandendur segjast ekki hafa fengið upplýsingar um hvað hafi gerst en að 40 mínútur hafi liðið frá því að konan fékk hjartastopp þar til hún kom á gjörgæsludeild. Þar leiddi myndataka í ljós að hún hefði hlotið heilaskaða af völdum súrefnisskorts. Hún lést um morguninn.

Undirbúa skaðabótamál

Foreldrar Heklu Lindar kvörtuðu til umboðsmanns þar sem þau gerðu athugasemdir við niðurstöðu ríkissaksóknara sem staðfesti ákvörðun héraðssaksóknara um að fella niður mál vegna andlátsins. Þau ákváðu að höfða skaðabótamál og óskuðu eftir að umboðsmaður nýtti heimild sína til að leggja til að þeim yrði veitt gjafsókn.

Umboðsmaður telur ljóst að rannsókn á andláti Heklu lúti að mikilvægum hagsmunum foreldra hennar. „Af samskiptum þeirra við umboðsmann verður ekki annað ráðið en að þau telji lögregluna bera ábyrgð á andláti hennar sem og að sú rannsókn sem fór fram hjá nefnd um eftirlit með störfum lögreglu sé haldin annmörkum,“ segir í bréfi umboðsmanns til dómsmálaráðherra, þar sem hann leggur til að gjafsókn verði veitt. 

Þar segir einnig að rétturinn til lífs og mannhelgi njóti verndar samkvæmt lögum og af honum leiði að tryggja þurfi að andlát sé upplýst með viðhlítandi hætti. Umboðsmaður telur rétt að foreldrarnir fái óhindrað leyst úr vafaatriðum málsins fyrir dómstólum sér að skaðlausu. 

Óvenjulegar aðstæður

Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, segir í samtali við fréttastofu að það sé óvenjulegt að gjafsókn sé veitt við þessar aðstæður. „Gjafsókn hefur fyrst og fremst átt við í málum þar sem stjórnvöld hafa ekki hlýtt áliti umboðsmanns og borgarar hafa af þeim sökum neyðst til að leita réttar síns fyrir dómstólum. Í þessu máli er umboðsmaður ekki að gefa þetta út vegna afstöðu gjafsóknarnefndar eða ráðherra, eða hugsanlegrar afstöðu þeirra. Umboðsmaður er ekki að bregðast við umsókn, eða svari við umsókn. Málið er þess eðlis að umboðsmaður telur að veita skuli gjafsókn við þessar aðstæður,“ segir hann.

Það sé svo dómsmálaráðuneytins að taka afstöðu til þess hvort málið fari fyrir gjafsóknarnefnd, eða hvort það telur rétt að bregðast við með öðrum hætti.