ÍA í undanúrslit Mjólkubikarsins - Vestri sló Val út

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

ÍA í undanúrslit Mjólkubikarsins - Vestri sló Val út

15.09.2021 - 18:24
Tveimur leikjum er lokið í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í dag. Lengjudeildarlið Vestra gerði sér lítið fyrir og sló út Íslandsmeistara Vals fyrir vestan. ÍA gerði svo góða ferð í Breiðholtið og lagði þar ÍR.

Valur var á undan að skora gegn Vestra í dag og Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Val í 1-0 á 34. mínútu. Vestramenn jöfnuðu metin með marki Meneses Chechu á lokamínútu fyrri hálfleiks og 1-1 stóð í hléi. Sigurmark Vestra skoraði Martin Montipó svo á 62. mínútu og óvænt úrslit staðreynd.

ÍA sótti ÍR heim, en ÍR er í 9. sæti 2. deildar. Heimamenn voru þó sprækir og komust yfir á 17. mínútu þegar Pétur Friðriksson skoraði. ÍA svaraði þó með þremur mörkum; Þórður Þórðarson skoraði á lokamínútu fyrri hálfleiks, Gísli Unnarsson bætti öðru við á 55. mínútu og í uppbótartíma skoraði Guðmundur Tyrfingsson. 3-1 fór og ÍA komið í undanúrslit.

Síðari leikirnir tveir í 8-liða úrslitum eru klukkan 19:15 og þar mætast Fylkir og Víkingur og HK og Keflavík.