Haukar og Fjölnir í úrslit VÍS-bikarsins

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Haukar og Fjölnir í úrslit VÍS-bikarsins

15.09.2021 - 18:11
Undanúrslit í VÍS-bikar kvenna í körfubolta fóru fram í kvöld. Fjölnir tryggði sér sæti í úrslitum í fyrsta sinn og mætir þar Haukum.

 

Haukar og Valur urðu í sætum eitt og tvö í báðum keppnunum sem náðist að klára í fyrra og bæði skiptin var það Valsliðið sem hafði betur og vann deildina og Íslandsmeistaratitilinn í vor. Leikurinn í kvöld var því spennuþrunginn og allan leikinn gekk forystan liðanna á milli.

Lítið var skorað í fyrri hálfleik og Valur var tveimur stigum yfir að honum loknum, 28-26. Haukum gekk betur í þriðja leikhluta og voru þremur stigum yfir eftir hann, 47-44. Haukar skoruðu svo 10 fyrstu stigin í fjórða leikhluta og lögðu þar grunninn að sigrinum. Valur náði aldrei að minnka muninn að ráði og Haukar unnu með 68 stigum gegn 59 og komust í úrslitaleikinn.

Hjá Fjölni og Njarðvík var svipuð spenna og forystan gekk liðanna á milli. Jafnt var í leikhléi, 27-27. Jafnt og þétt náði Fjölnir svo að auka forskotið í fjórða leikhluta, en munurinn var þó aldrei mikill. Fjölnir vann 65-60 og komst í bikarúrslitin í fyrsta sinn.

Bikarúrslitaleikirnir eru á laugardag. Klukkan 16:46 er úrslitaleikur kvenna og klukkan 19:45 úrslitaleikur karla. Báðir leikir eru sýndir beint á RÚV 2.

 

Tengdar fréttir

Körfubolti

Valur vann Stjörnuna og undanúrslitin klár

Körfubolti

Þægilegur sigur hjá Haukum gegn Keflavík