Brugðið við að sjá fólk leggja sig í hættu

15.09.2021 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar S Einarsson
Fátítt er að fólk leggi sig í viðlíka hættu og einstaklingurinn sem gekk á gígbarminn á gosstöðvunum á Reykjanesi fyrir hádegi í morgun. Flestir gæti sín en því miður séu einstaka undantekningar á.

 

Þetta sagði Helgi Einarsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, í samtali við kvöldfréttir RÚV. Hann sagðist að svo stöddu ekki vita meira um málið en það sem sést hefði í fjölmiðlum. Hann sagði þó að sér væri brugðið við að sjá fólk leggja sig í óþarfa hættu með þessum hætti. 

Aðspurður sagði hann ekki algengt að sjá viðlíka athæfi. Heilt yfir passaði fólk sig í umgengni sinni við gosstöðvarnar „en þó er alltaf einn og einn sem er aðeins of kærulaus,” sagði Helgi.  

- Þyrfti hreinlega að setja upp skilti til að vara fólk við þessari hættu sem hér er? 

„Maður skyldi ætla að það ætti ekki að þurfa að vara fólk við að labba á nýstorknuðu hrauni en svo virðist vera," sagði Helgi. 

Guðni Oddgeirsson, björgunarsveitarmaður og svæðisstjóri á svæði 2, benti í samtali í kvöldfréttunum á að takmörk séu fyrir því hve langt viðbragðsaðilar geti gengið við björgun fólks sem hefur farið sér að voða við gosstöðvarnar. 

„Það eru skýr skilaboð til okkar fólks á svæðinu að við göngum ekki út á nýstorknað hraunið og leggjum okkur í þannig hættu,” sagði Guðni.