Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bíða með veika dóttur í mánuði eftir svörum frá BUGL

Mynd: RÚV / RÚV
Faðir fjórtán ára stúlku sem er illa haldin af átröskun furðar sig á að fá engin svör frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans þrátt fyrir að tilvísun hafi borist þangað. Hann skoðar nú að sækja meðferð erlendis. Móðir annarrar stúlku eyðir þrjátíu og sex þúsund krónum á mánuði í sálfræðiaðstoð fyrir dóttur sína meðan hún bíður þess að komast að á BUGL.

Aldrei hafa verið fleiri börn og unglingar verið í átröskunarmeðferð á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Læknir í átröskunarteymi deildarinnar sagði í fréttum RÚV nýverið að í fyrsta skipti hefðu myndast biðlistar eftir meðferð við átröskun. Fram kemur í skýrslu um afleiðingar faraldursins að frá því hann braust út hafi tilvísunum á BUGL vegna átröskunar fjölgað um sjötíu prósent. 

Fréttastofa ræddi við föður fjórtán ára stúlku sem glímir við síversnandi átröskun. Af tillitsemi við dóttur sína vildi faðirinn ekki koma fram undir nafni.

Hófst allt með skilaboðum frá bekkjarfélaga

„Eitthvað sem triggeraði það var einhver ein setning sem henni var send í skilaboðum um að hún væri feit, þó svo að hún hefði aldrei verið nálægt því að hafa aukagrömm utan á sér. Hún ákvað að taka mataræðið í gegn hjá sér. Svo svona áttaði maður sig á því einhvern tímann eftir áramót að hún var ekki að innbyrða nógu mikinn mat, ekki nógu orkuríkan mat og hún fór að grennast,“ segir faðirinn.

Í vor viðurkenndi stúlkan fyrir foreldrum sínum að hugmyndin um grennast væri orðin að þráhyggju. Hún var þá hætt að hafa blæðingar og hefur lést um sjö kíló í sumar.

Engin svör berast frá BUGL

„Síðan þá hefur þetta stigmagnast. Við fengum viðtal við geðlækni sem staðfesti svo sem okkar grun að þetta væri alvarlegt mál og fær tilvísun inn á BUGL. Síðan hefur ekkert gerst þaðan. Við höfum ítrekað hringt þarna inneftir,“ segir faðirinn. Tekin eru skilaboð þegar hann hringir og honum sagt að það verði hringt til baka en það er aldrei gert.

„Á sama tíma sér maður henni hraka hratt og örugglega. Í raun og veru er maður bara að leita eftir einhverjum upplýsingum, hvort við séum að bíða í tvær vikur, þrjár vikur, sex mánuði eða 20 mánuði eins og það virðist vera orðið núna. En það koma engin svör, bara ekki neitt,“ segir faðirinn.

Fékk bréf eftir 5 mánuði um að staðan verði könnuð eftir 6 mánuði

Fréttastofa ræddi við móður annarrar stúlku sem hefur verið með átröskun frá þrettán ára aldri. Hún er nú fimmtán ára. 

Í mars sendi læknir tilvísun á BUGL og í byrjun ágúst eða fimm mánuðum síðar, fékk móðirin bréf um að haft yrði samband eftir sex mánuði til að heyra hvernig staðan væri. Móðirin greiðir úr eigin vasa 36.000 krónur á mánuði svo dóttirin geti fengið aðstoð sálfræðings.

Ekki unnt að tala um mat

Stúlkan er hætt á blæðingum. Hún einangrar sig og er haldin miklum kvíða. Hún óttast mjög hvað fólk segi um hana og getur ekki borðað fyrir framan aðra en foreldra og afa og ömmu. Til þess að valda henni ekki vanlíðan eru matartímar þannig að foreldrarnir minnast ekki orði á hvernig maturinn bragðast eða hvort þau séu södd eða svöng. Aldrei eru haldin matarboð eða slík boð þegin.

Leitar aðstoðar í útlöndum

Foreldrar stúlknanna eru uggandi um heilsu þeirra meðan beðið er eftir aðstoð. Faðirinn er farinn að leita út fyrir landsteinana. 

„Á meðan þetta er svona hér þá fer maður að hætta að horfa í það að fá hjálp hér, ef þetta eru viðbrögðin sem við fáum. Þau eru engin,“ segir faðirinn.