Vonast eftir undanþágum

Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson / Helgi Viðar Hilmarsson

Vonast eftir undanþágum

14.09.2021 - 10:45
Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks, vonast til að liðið geti spilað heimaleiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli. Það sé þó allt háð undanþágum, enda Kópavogsvöllur ólöglegur samkvæmt stöðlum UEFA, Evrópska knattspyrnusambandið.

Perurnar í flóðljósum Kópavogsvallar eru nefnilega ekki eins sterkar og staðlar UEFA kveða á um. Ásta bindur þó vonir við að geta spilað á Kópavogsvelli. „Vonandi. Það er það eina sem við viljum, að spila hérna heima þar sem okkur líður best. Vonandi fáum við bara þessa undanþágu sem talað er um. Ég held bara í vonina og trúi ekki öðru en að það hafist,“ sagði Ásta Eir við RÚV á Kópavogsvelli í gær.

Fyrsti leikur Blika í riðlakeppni Meistaradeildarinnar verður gegn franska stórliðinu París Saint-Germain 6. október á Íslandi. Liðin mættust síðast í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum. „Já, þær koma aftur til okkar og það er bara mjög spennandi. Við byrjum á alvöru leik. Það verður mjög skemmtilegt að byrja á stórleik og við getum bara ekki beðið,“ sagði Ásta.

Voru aðeins með þrjá varamenn í síðasta Meistaradeildarleik

Leikmannahópur Breiðabliks er þó farinn að þynnast, þar sem leikmenn hafa farið í nám í háskólum erlendis eða á lán svo eitthvað sé nefnt. Af þeim sökum voru aðeins þrír varamenn í seinni leik Blika á móti króatíska liðinu Osijek í umspilinu fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku. Ásta segir að unnið sé hörðum höndum að því að stækka leikmannahópinn. Það sé þó erfitt enda lokað fyrir félagaskipti.

„Það er verið að vinna í undanþágum þar líka. Það er í vinnslu að kalla leikmenn á láni til baka. Ég þekki svosem ekki alveg hvernig við getum reynt að sækja leikmenn svo eftir öðrum leiðum meðan félagaskiptaglugginn er lokaður. En ég veit að þessi mál eru í vinnslu,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðabliks.