Vandræðalegar strætóferðir eftir æskuár í sveitinni

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Vandræðalegar strætóferðir eftir æskuár í sveitinni

14.09.2021 - 13:06

Höfundar

Árni Páll Árnason ólst upp við nokkuð frumstæðar aðstæður í sveit þar sem hann lék sér með legg og skel. Þar voru fáir á ferli og hann tók upp þann sið að heilsa öllum sem hann hitti. Eftir að hann flutti í Kópavog nokkrum árum seinna fannst honum því ekkert eðlilegra en að ganga upp að öllum farþegum í strætó og heilsa þeim.

Árni Páll unir hag sínum vel í Brussel þar sem hann býr í rúmlega 100 ára gömlu húsi í vel grónu hverfi. Þrátt fyrir að borgin sé landlukt fær hann aldrei innilokunarkennd og þakkar því hversu opin borgin er og mikið um garða. „Ég hef búið í Brugge, í Flæmingjalandi hér í Belgíu. Það er mjög lítill bær og þar fékk ég innilokunarkennd, þar er allt svo þröngt og lítið. En hér er auðvelt að komast í garða, auðvelt að komast í tengsl við náttúru,” segir Árni Páll sem var gestur í Sunnudagssögum á Rás 2.

Í Brussel gegnir Árni Páll stöðu varaframkvæmdastjóra uppbyggingarsjóðs EES en stofnunin ráðstafar fé til uppbyggingar verkefna í fátækari ríkjum Evrópusambandsins. Verkefnin eru af ýmsum toga en Árni Páll segist sjálfur vera stoltastur af fjármögnun frjálsra félagasamtaka. „Það eru ekki margir sem vita að sjóðurinn er stærsti fjármögnunaraðila frjálsra félagasamtaka í öllum viðtökuríkjunum og heldur lífinu í frjálsum félagasamtökum í fjölda mörgum viðtökuríkjanna. Það hefur þrengst mjög um svigrúm frjálsu félagasamtakanna í mörgum af viðtökuríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu sérstaklega á síðustu árum. Þar af leiðandi er þetta framlag mjög mikilvægt og ég held að Íslendingar megi vera afskaplega stoltir af þessu framlagi til að viðhalda lýðræði og fjölbreytileika í álfunni,” segir Árni Páll.

Vildi taka gamlan sveifarsíma með í borgina

Árni Páll bjó fyrstu ár ævi sinnar í Söðulsholti á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem pabbi hans var prestur og mamma hans kennari. Sveitin var á þessum tíma afskaplega afskekkt og ferðalag til Reykjavíkur tók rúmlega fimm klukkutíma þar sem ferðin einkenndist af örmjóum vegum og einbreiðum brúm. Sveitin var lengst af án rafmagns en rafmagn var lagt í bæinn árið sem Árni Páll fæddist. Sex ára gamall flutti Árni Páll úr sveitinni og í Kópavog en flutningurinn var ekki áfallalaus fyrir sex ára gamlan dreng. „Ég man eftir að ég grét af því að við tókum ekki símann með okkur. Síminn var hins vegar bara sveifarsími. Ég man ekki númerið, hvort það var löng-stutt-löng. En mér fannst óhugsandi að taka ekki símann með. Þá var reynt að útskýra fyrir mér hugtakið skífusími. Skífusímar voru þá 40 ára gamalt fyrirbæri,” segir Árni Páll

Í dag eiga margir erfitt með að trúa Árna þegar hann lýsir frumstæðum lifnaðarháttum í sveitinni og þá sérstaklega þegar hann segist hafa leikið sér með legg og skel. „En ég er búinn að finna myndir af því þar sem ég er að leika mér með legg og skel. Maður náði brú á milli tveggja tíma,” segir Árni Páll sem er þakklátur fyrir að hafa kynnst samfélagi sem átti þarna undir högg að sækja.

Heilsaði öllum í strætó

Sveitastrákurinn var fljótur að finna sig í borginni en stöku sinnum varð hann var við talsverðan menningarmun. „Mamma hlær að því enn þann dag í dag hvað það var vandræðalegt að fara með mig í strætó. Ég gekk að hverjum manni í strætónum og heilsaði. Ég var alinn upp í sveit, maður sá svo fátt fólk og maður átti alltaf að heilsa þegar maður hitti fólk,” segir Árni Páll.

Um tíma starfaði Árni Páll í stjórnmálum og var hann ráðherra og formaður Samfylkingarinnar. Pólitískur áhugi kviknaði snemma hjá honum og sem barn fannst honum gaman að fylgjast með stjórnmálaumræðu. Svo mikill var áhuginn að átta ára gamall fór Árni Páll í Keflavíkurgöngu með frændum sínum og bróður. Eftir gönguna fór hann svo á flakk með þeim um Reykjavík. „Það voru engir farsímar og svona og foreldrar mínir skyldu ekkert hvað hafði orðið af mér,” bætir hann við.

Fann til ábyrgðar þegar hann eignaðist sitt fyrsta barn

Þegar kom að því að velja sér starfsvettvang reiknuðu margir með að Árni Páll myndi feta í fótspor foreldra sinna og gerast prestur eða kennari. „Elsti bróðir minn er prestur þannig að það var upptekið. Ég kenndi þegar ég var búinn í menntaskóla. Þá kenndi ég forfallakennslu í grunnskólum. Svo fór ég í lagadeildina, ég varð pabbi mjög ungur og það hafði mikil áhrif á hugsunargang minn. Ég fann til ábyrgðar og langaði að sjá fyrir fjölskyldu og ætlaði að standa mig. Þá hugsaði ég hvort ég ætlaði að vera kennari alla ævi og mér fannst það dálítið þrúgandi. Starfsvalið réðist svolítið af því. Þá fór ég í lagadeildina og svo kenndi ég lögfræði með háskólanámi. Ég hef kennt á öllum skólastigum nema í leikskóla. Ég hef kennt fimm ára bekk og upp í endurmenntun í háskóla. Svo kenndi ég eftir lögfræðina í háskóla,“ segir Árni Páll sem eignaðist sitt fyrsta barn 17 ára gamall en hann segir að það hafi breytt hugsunarhætti hans mikið. 

Önnur gildi stjórnmálafólks í dag

Bókahillurnar heima hjá Árna Páli eru fullar af sagnfræðibókum og ævisögum en sjálfur segir hann að sitt uppáhalds lesefni séu vel skrifaðar ævisögur stjórnmálamanna. Þær les hann spjaldanna á milli og segir að gildi þeirra sem starfa í stjórnmálum nú séu önnur en áður var. „Ég ólst upp við það að það skipti máli að segja það sama á morgun og í dag. Það skipti máli að geta rökstutt mál sitt í rituðu máli. Það skipti máli að halda góðar ræður sem væru fullar af hugsun. Flest af þessu er úrelt í dag. Þú sérð á sviði stjórnmálanna að það skiptir meira máli að búa til „concept”. Þú býrð til sögn sem þú myndskreytir og hún verður að veruleika. Þeir sem ná þessu og eru góðir í þessu þeir stjórna umræðunni. Tveir mjög ólíkir stjórnmálamenn hafa verið mjög góðir í þessu á síðustu árum. Annar er Donald Trump og hinn er Emmanuel Macron,” segir Árni Páll. 

Samfélagsmiðlar hafa breytt miklu

Hann segir samfélagsmiðla hafa breytt miklu en það sama gildi um þá eins og aðra nýja miðla. „Það sem ég held að eigi líka eftir að breytast, alveg eins og gerðist í upphafi ritmáls og upphafi útvarps, að sumir munu læra á miðilinn. Svo munu byrjunarörðugleikar af hverjum miðli fyrir sig slípast af. Útvarpið var eitthvað sem menn náðu alls ekki tökum á. En það voru tveir jafn ólíkir stjórnmálamenn og Adolf Hitler og Franklin Roosevelt sem náðu tökum á útvarpinu af mikilli snilld. Sjónvarpið, Nixon gat ekki notað sjónvarp en Kennedy gat það. Það er alltaf nýr miðill sem kemur með nýjar áskoranir,” segir Árni Páll.

Virðing fyrir stjórnmálum er mun minni í dag en hún var áður að mati Árna Páls sem minnist þess þegar eldri kynslóðin mætti í jakkafötum og upphlut til að kjósa. Þá hafi verið borin meiri virðing fyrir ólíkum skoðunum kjósenda. „Mér finnst ég sjá í mjög mörgum samfélögum vesturlanda í dag uppbrot í orðræðu. Óvinavæðingu og ekki beint hatursorðræðu en samt rosalega harkalegt orðfæri um aðra, um hina. Mér geðjast ekki að því,” segir Árni Páll sem telur að þarna spili samfélagsmiðlar stórt hlutverk. „Samfélagsmiðlar hafa ýtt undir þessa tilhneigingu vegna þess að flest okkar sjá bara hvað fólk með sömu skoðanir segir. Þar af leiðandi magnast upp þessi tilhneiging. Þú sérð aldrei röksemdir hinna. Þú hugsar bara að þetta hljóti að vera vont fólk. Fyrst það er á öndverðum meiði, þú sérð aldrei röksemdirnar þeirra. Það fer aldrei nein rökræða fram fyrir framan þig. Þá er mjög auðvelt að útmála andstæðinga eða keppinauta sem vont fólk. Það mun ekki leiða samfélögin á neinn betri staða. Sjáum bara þróunina í Bandaríkjunum, hvernig stjórnmálin þar hafa öfgavæðst,” segir Árni Páll.

Ógleymanleg augnablik á þingi

Sjálfur varð Árni Páll vitni að breyttri orðræðu þegar hann sat á þingi á tímum efnahagshrunsins á Íslandi. „Það var gríðarleg harka, það var gríðarleg grimmd. Mjög hörð orðræða. Mjög mikið álag, mjög mikið áreiti. Mikil ógn. Það var svakalegt að upplifa óeirðirnar sem urðu aftur og aftur á Austurvelli og í kringum það. Fjöldamótmæli þar sem jafnvel stjórnmálamenn þurftu lögreglufylgd til að komast leiðar sinnar. Maður upplifði oft reiði fólks. Maður skildi reiðina en það var ekki þar með sagt að maður gæti endilega leyst úr áhyggjuefnunum. Það er eitt að skilja reiði og annað að afsaka hana. Eitt er reiði og annað er ofbeldi.”

Árni Páll upplifði mörg ógleymanleg augnablik á þingi á þessum tíma og honum er sérlega minnisstæð nótt sem minnti hann á kvikmyndina Der Untergang sem fjallar um fall þriðja ríkisins. „Það lá fólk eins og hráviði í sófum og stólum sofandi, úrvinda af þreytu. Þingmenn með kuðlaðan jakka undir höfðinu sofandi á gólfinu. Þetta var ótrúlegt að sjá. Svo var hringt inn til atkvæðagreiðslu um fimm um morguninn og allir komu inn með stírurnar í augunum að greiða atkvæði. Ég man þegar ég labbaði heim um sex um morguninn þá hugsaði ég: Þetta á eftir að vera erfitt. - Þarna var ég óbreyttur þingmaður og svo byrjar þetta ferli allt saman og þróast eins og við þekkjum,” segir Árni Páll.

Nánar var rætt við Árna Pál í Sunnudagssögum á Rás 2.