Hið andlega má ekki bara eftirláta hinum trúuðu

Mynd: EPA / EPA

Hið andlega má ekki bara eftirláta hinum trúuðu

14.09.2021 - 09:33

Höfundar

Elif Shafak, handhafi alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness, segir að trú án efasemda sé bara kredda og kreddur beri að varast. „Ég kann að meta dansinn milli trúarinnar og efasemdanna. Mér finnst það spennandi.“

Um helgina voru afhent við hátíðlega athöfn í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Það var Tyrknesk-breski rithöfundurinn Elif Shafak sem fékk verðlaunin að þessu sinni. Hún er önnur í röð verðlaunahafa, Ian McEwan hlaut verðlaunin fyrstur manna árið 2019. Verðlaunin eru afhent alþjóðlega þekktum fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum.

Rithöfundurinn Elif Shafak fær bókmenntaverðlaun Halldórs LAxness 2021.
Elif Shafak tók á móti verðlaununum í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur.

Shafak var skiljanlega lukkuleg með verðlaunin og þótti spennandi að heimsækja Ísland. Hún þekkti til verka Halldórs Laxness áður en henni var tilkynnt að veita ætti henni verðlaunin.

„Halldór var afkastamikill rithöfundur. Hann skrifaði þvert á formin, auðvitað mikilvægar skáldsögur en líka ljóð og styttri prósa, greinar og samfélagsrýni ýmis konar. Ég hef því verið að lesa mér til um dýpt og breidd ritstarfa hans og sé að hann skiptir miklu máli, líka nú í samtímanum, jafnvel meir í dag heldur en fyrri áratugi.“

Jórunn Sigurðardóttir ræddi við Elif Shafak, á Gljúfrasteini, húsi skáldsins, eftir að hún hlaut verðlaunin. Viðtalinu verða gerð betri skil síðar í dagskrá Rásar 1 í þættinum Orð um bækur, en hluti þess var fluttur í menningarþættinum Víðsjá.

Þær ræddu meðal annars um áhuga Shafak á hinu andlega og hvernig hið veraldlega og trúarlega rekast á með ýmsum hætti í heimalandi hennar, Tyrklandi.

„Ef þú ert veraldlega þenkjandi í Tyrklandi, framsækin lýðræðissinni eða módernisti eins og við köllum það í Tyrklandi, femínisti til dæmis og þar fram eftir götunum, þá er ekki ætlast til þess að þú fylgist mikið með því andlega í samfélaginu,“ segir Shafak. Hún vill hins vegar gera greinarmun á því andlega og hinu trúarlega. „Ég er alls ekki trúuð sjálf, ég efast of mikið til þess að geta trúað. En mér finnst mikilvægt að spyrja mig andlegra spurninga þó ég viti ekki svörin sjálf. Að spyrja sig skiptir máli og mér finnst að þeir sem eru vinstra megin í stjórnmálum þurfi til dæmis að átta sig á þessu. Að eftirláta ekki bara öðrum að velta fyrir sér því andlega.“

Ólík svið tilverunnar þarf að skoða ofan í kjölinn, segir hún, og þá skiptir máli að eftirláta það ekki bara þeim sem þykjast hafa kennivaldið. „Hið andlega má ekki bara eftirláta hinum trúuðu. Föðurlandsástin er ekki bara einkamál þjóðernissinna. Tæknin er ekki bara einkamál tæknirisanna. Öll þessi ólíku svið þarf að skoða ofan í kjölinn og við höfum kannski ekki alveg komið okkur upp tungutaki til að fjalla um þessi mál.“

Shafak hefur dálæti á efanum. „Trú án efasemda er bara kredda og kreddur ber að varast. Ég kann að meta dansinn milli trúarinnar og efasemdanna. Mér finnst það spennandi. Við þurfum að umgangast fólk sem er ólíkt okkur, fjölbreytileikinn getur kennt manni eitthvað nýtt. Þess vegna þurfum við að styrkja samkenndina í heiminum þvert á menningarheima með því að segja sögur.“

Jórunn Sigurðardóttir ræddi við Elif Shafak, handhafa alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness. Viðtalið verður flutt í heild í Orðum um bækur á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Elif Shafak hlýtur bókmenntaverðlaun Laxness