Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Öll þjónusta komin í lag eftir netárásina

12.09.2021 - 08:58
Greiðsluposi fyrir greiðslukort.
 Mynd: Lee  - RGBStock
Umfangsmikil netárás var gerð á greiðslufyrirtækið Valitor í gærkvöld og olli hún um tíma talsverðum erfiðleikum með kortagreiðslur og úttektir.

Jónína Ingvadóttir, upplýsingafulltrúi Valitor, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að netárásin hefði ekki haft aðrar afleiðingar en áðurnefnd vandræði notenda við greiðslur og úttektir sem náðu hámarki milli kl. átta og níu í gærkvöldi.

Hún áréttaði að árásin beindist ekki að innri kerfum fyrirtækisins og ógnaði ekki gagnaöryggi á neinum tímapunkti. 

Ekki vitað um jafn viðamikla netárás á fyrirtækið

Laust fyrir klukkan tíu var svo þjónustan komin að mestu leyti í lag á ný. Aðspurð sagðist Jónína ekki vita til þess að jafn umfangsmikil netárás hafi nokkurn tímann verið gerð á Valitor. Fyrirtækið mun því halda áfram að fylgjast grannt með sínum kerfum, eins og segir í tilkynningu á heimasíðu Valitor.