Dóttirin spurði: „Dey ég ef ég fer út?“

Mynd: RÚV / RÚV

Dóttirin spurði: „Dey ég ef ég fer út?“

12.09.2021 - 09:00

Höfundar

Sigríður Eir Zophaníusardóttir er frelsinu fegin eftir 26 daga innilokun í bæði sóttkví og einangrun. Hún segir að einangrunin hafi reynt mikið á sálartetur sitt, en hún var sérstaklega erfið fyrir dætur hennar sem skildu ekki að þær mættu ekki fara út og upplifðu bæði heiminn og sig sjálfar sem hættulegar.

Sigríður Eir Zophoníusardóttir, tónlistarkona og aðstoðarleikskólastjóri, var að losna úr 26 daga innilokun. Hún var fyrst send í sóttkví en greindist loks með covid og þá hófst einangrunin. Ein- og inniveran tók sinn toll og hún kíkti frelsinu fegin í Mannlega þáttinn á Rás 1.

Kærastan greindist með COVID

Innilokunin byrjaði á því að kærasta Sigríðar, Gréta Kristín, smitaðist af covid. Daginn áður en það varð ljóst höfðu Sigríður, Tótla fyrrverandi eiginkona hennar, dætur þeirra tvær og Gréta átt gæðastund saman. Smitið skyggði hins vegar á gæðastundina þegar ljóst varð að fjölskyldan þyrfti öll að loka sig inni. „Við blasti sóttkví fyrir mig og börnin og Tótlu, mína fyrrverandi eiginkonu,“ segir Sigríður. Á meðan kærastan fór í einangrun á heimili Sigríðar flutti hún inn til Tótlu sinnar fyrrverandi þar sem þær og börnin voru í sóttkví. Þegar sóttkvínni var að ljúka greindist eldri dóttir Sigríðar með covid. „Þá þurftum við að fara í einangrun og þegar hún var að klárast greinist ég með covid.“

Vildi ekki neita dóttur sinni um knús

Þá hafði hún tekið ákvörðun þegar eldri dóttirin greindist að hætta ekki að knúsa hana eða að halda við hana fjarlægð. „Hún er sex ára. Að reyna að knúsa ekki, mér finnst það ekki fórnarkostnaðarins virði,“ segir Sigríður. „Það er eitthvað sem getur sest á litlar sálir, að upplifa sig eitraðan og fá ekki knús í tíu daga. Ég myndi ekki leggja það á eitt einasta barn.“

Sigríður segir að einangrun geti verið svo ungum börnum afar þungbær. Það hafi verið erfitt að banna dætrum sínum að fara út í tíu daga og þær voru farnar að upplifa heiminn sem hættulegan. Sú yngri spurði á fimmta degi einangrunar: „Dey ég ef ég fer út?“

Býr til spennu og skringilegheit að vera innilokaður

Hún segir að ávinningurinn af sóttvörnum sé mikill og hún er ekki á móti þeim, en hefur efasemdir um gildi þess að leyfa einkennalausum börnum ekki að fara út fyrir hússins dyr. „Ég veit ekki alveg hvort það sé þess virði. Það er ólíklegt þegar maður passar sig í eigin garði að maður smiti,“ segir hún. „Það býr til spennu og skringilegheit að vera innilokaður og mega ekki fara út.“

Sigríður segir að hún og kærastan séu heppnar að hafa reynslu af því að vinna á leikskóla og þær kunni því vel að hafa ofan af fyrir börnum. Það var því líf og fjör á bænum. „Þrautadrottning var mikið tekin innanhúss og alls konar þrautabrautir. Allt nýtt til að búa til hreyfingu, ekki snerta gólf því það er hraun og stoppdans og allt þetta.“

Sló því á frest að taka til

Þegar Sigríður var að lokum ein í einangruninni var það erfitt á annan hátt. „Auðvitað er erfitt að vera innilokaður með börnunum sínum lengi, þurfa að hafa ofan af fyrir þeim og helst að láta þær ekki finna mikið fyrir að það sé ömurlegt ástand í gangi,“ segir hún. „En svo kemur skringilega mómentið þegar maður er einn og hausinn fer í spíral.“ Hún kveið því að hafa ekkert fyrir stafni, fékk leið á að liggja í sófanum og horfa á sjónvarpið. „Ég hafði engan fókus. Mig langaði að lesa bók en náði ekki að una mér í því,“ segir Sigríður sem sló einföldum heimilisverkum á frest til að hafa eitthvað fyrir stafni. „Nú er ég frekar snyrtileg manneskja en ég fór að hætta að taka til til að eiga verkefni inni seinna.“

Átakanlegt að sjá áhrifin á dæturnar

Að komast loks út eftir allan þennan tíma segir Sigríður hafa verið óraunverulegt og henni fannst hún hafa gleymt öllu. „Ég keyrði á 30 í vinnuna, mér fannst allt svo hratt og skrýtið,“ rifjar hún upp. „Ég hugsaði: mögulega er ég búin að gleyma hvernig á að keyra bíl, trúlega hef ég gleymt hvernig maður hefur samskipti við fólk.“

Henni fannst líka fyrst um sinn óþægilegt að vera í návígi við fólk og leið sem þeim stafaði hætta af sér. „Mér fannst ég hættuleg,“ segir hún. „En ég var frelsinu auðvitað fegin. Ég upplifi núna að ég sé í endurhæfingartímabili.“

Dóttir hennar átti sömuleiðis erfitt með að trúa því þegar henni var sagt að hún mætti loks fara út og vera á meðal fólks. „Ég var í svona klukkutíma að sannfæra hana,“ segir Sigríður. „Mér fannst átakanlegt að finna hvað þetta hafði hröð áhrif á stelpurnar.“

Stressuð sveitatútta í MH

Sigríður er alin upp á Hallormsstað þar sem móðir hennar var skólastjóri. Þar bjó hún til fimmtán ára aldurs þegar hún flutti á Egilsstaði þar sem hún var í menntaskóla í tvö ár. Eftir þau lét hún drauminn rætast um að fara til Reykjavíkur og læra í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Sú reynsla var henni fyrst erfið. „Ég var sjúklega stressuð að koma, sveitatútta í MH og hafði heyrt alls konar sögur um að maður mætti ekki sitja hvar sem var,“ rifjar hún upp. „Ég kom á gúmmískónum fyrsta daginn og var bara í sjokki, ég var svo stressuð að sitja á vitlausum stað. Ég var lengi í þessu ástandi, sat gjarnan í fatahenginu, uppi hjá tölvunum eða stóð upp við vegg að fylgjast með þangað til ég byrjaði í kórnum og eignaðist vini þar.“

Kennslukerling og listakona

Félagar hennar í kórnum og leikfélaginu buðu henni loks að sitja hjá sér í Norðurkjallara þar sem hún eignaðist dýrmæta vini. „Það var rosalegt frelsi að koma til Reykjavíkur og hitta fólk sem mér fannst vera eins og ég.“

Seinna stofnaði hún hljómsveitina Evu sem Sigríður er í ásamt Völu Höskuldsdóttur auk þess sem hún er aðstoðarskólastjóri í leikskóla þar sem hún nýtur sín vel. Hana dreymir um að vera í skólastjórnun í átta til tíu mánuði á ári en listakona í tvo mánuði. Að setja upp eina sýningu á ári meðfram því að spila og syngja. „Þetta er fullkomið fyrir mig. Að vera kennslukerling og listakona öðru hverju.“

Rætt var við Sigríði Eir Zophaníusardóttur í Mannlega þættinu á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

Tónlist fyrir heila „Ævi“