Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hljómsveit flestra landsmanna

Mynd með færslu
 Mynd: Hvanndalsbræður - Hraundrangi

Hljómsveit flestra landsmanna

10.09.2021 - 11:31

Höfundar

Hraundrangi er ný plata Hvanndalsbræðra. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Hvanndalsbræður var stofnuð 2002, fyrsta platan kom út haustið 2003 og ég dæmdi hana í mars 2004. Nú er ég loksins komin með nýja til meðferðar og kannski við hæfi, miðað við þessar játningar, að hún kom út í fyrra.

Platan er áttunda skífa þessarar gleðisveitar sem var stofnuð af þeim Rögnvaldi „gáfaða“ Braga  Rögnvaldssyni, Vali Frey Halldórssyni og Sumarliða Helgasyni. Í ölæði. Þjóðlagapönk í galgopalegum stíl hefur verið stundað af sveitinni lungann af ferli og ef sækja á aðrar sveitir til samlíkingar mætti helst nefna Ljótu hálfvitana og Helga og Hljóðfæraleikarana en allar koma þessar sveitir – þar með taldir Hvanndalsbræður - af Norðurlandi. Skriðjökla, sem Hvanndalsbræður hafa breitt yfir, mætti líka særa fram, enn eina norðansveitina. Platan nýja er tekin upp í Studio Tónverk í Hveragerði og sá Bassi Ólafsson um upptökur, hljóðblöndun og hljómjöfnun. Norðurlandspönki rennt í gegnum græjur sunnlenskar semsagt.

Sveitin hefur, eins og fram er komið, lagt stund á grín- og grallaraskap, húllumhæ og hoppoghí á ferlinum, hvort heldur á tónleikum eða á hljómskífum. Þessi plata er um margt fullorðinslegri en fyrri verk hvað sem veldur, kannski í tilefni komandi afmælis? Hér kemur myndlíking: Ef fyrstu verk voru sköpuð á síðasta árinu í grunnskóla, nýjustu plöturnar undir lok menntaskóla/við upphaf háskólaáranna erum við kominn langt inn í tveggja ára mastersnám á Hraundranga. Umslagið undirstrikar þetta á vissan hátt en sjá t.d. lag eins og „X“ sem Ása Elínar syngur með bræðrunum. Til þess að gera áferðarflott kántrílag, með töff spagettílykkjum, og fíflagangi gjörsamlega haldið í skefjum. Eins er með „Das“. Þrátt fyrir oft og tíðum kímileitan texta er þetta að mestu melankólískur söngur um hetjur hafsins. Opnunarlagið er þá írsku-skotinn ópus með sæmilegasta slagkrafti (meira að segja hent í hróp að hætti OMAM). Textinn raftalegur vissulega, fyllerí og vitleysa, en lagasmíðin sjálf er tekin upp líkt og stefnt sé á spilun í gerðarlegum græjum hjá arkitekt í Garðabæ. Hrátt er það ekki, vel unnið fremur, og er það bara ekki hið besta mál? A.m.k. er það greinilegt að þetta er ekki hið strípaða tríó sem færði okkur fyrstu skífurnar. En auðvitað eru „Hvanndalslög“ hérna líka, barninu var ekki hent út með baðvatninu. „Túristar“ og „Sykursjokk“ dekka þann þátt vel, sprellisöngvar uppfullir af húmor og spilagleði.

Þannig rúllar þetta hjá bræðrunum, einstigið látið vera og miklu heldur litið í hinar og þessar áttir. Held samt að menn séu ekki að fullorðnast neitt svakalega, það væri að sjálfsögðu skelfilegt ef það það myndi gerast!