Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áríðandi að ræða um sjálfsvíg án þess að vekja skömm

Mynd: John Inge Johansen/NRK / John Inge Johansen/NRK
Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er í dag 10. september. Verkefnastjóri í sjálfsvígsvörnum hjá embætti landlæknis segir að vanda þurfi umfjöllum um sjálfsvíg og tryggja öllum sömu þjónustu.

Tilgangur dagsins er að stuðla að forvörnum sjálfsvíga og minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Í ár er dagurinn helgaður hugtakinu „stuðningur í kjölfar sjálfsvígs.“ 

Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri í sjálfsvígsvörnum hjá embætti landlæknis og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar segir aðstandendur þurfa mikinn stuðning og þekkt sé að sjálfsvígshugsanir grípi um sig meðal þeirra sem eftir standa og geri jafnvel tilraunir til að taka eigið líf.

Guðrún Jóna segir tímann ekki lækna öll sár en hann mildi sársaukann. Orri Ómarsson, sonur Guðrúnar féll fyrir eigin hendi aðeins 16 ára að aldri. Vanda þurfi umfjöllum um sjálfsvíg en það sé flókið fyrir alla að fást við missi eftir sjálfsvíg.

„Og einmitt í fyrra voru gefnar út leiðbeiningar til fjölmiðla um hvernig ætti í rituðu máli að koma á framfæri fréttum af sjálfsvígum án þess að það ýti undi einhverja hrinu sjálfsvíga. Við viljum fjalla um málið en við viljum vanda okkur við það.“

Umræðan þurfi að vera ábyrg og velja þurfi orð yfir sjálfsvíg sem ekki valdi sektarkennd- og skömm. Um aldir fylgdi skömm sjálfsvígum og lögbrot var að taka eigið líf. Fólk sem það gerði var jarðað utan kirkjugarða í tilraunum stjórnvalda til að sporna við sjálfsvígum.

Skömm og dulúð fylgi sjálfsvígum og því sé mikilvægt að leggjast á eitt við að vanda sig. Nærgætni sé því afar mikilvæg, taka þurfi sérstaklega utan um 40 til 100 manns eftir hvert sjálfsvíg. Koma þurfi skýrt á framfæri að sjálfsvíg sé ekki rétta leiðin.

Guðrún Jóna segir aðgerðaráætlun í gangi til að fækka sjálfsvígum og tryggja þurfi að allir fái sömu þjónustu. Ekki eigi að sjúkdómsgera sorgina. 

„Það á ekki að vera að ef þú ert betur tengdur inn í kerfið en einhver annar að getir fengið þjónustu við hæfi. Þannig að það verður alveg skýrt hvernig verður hægt að nálgast aðstoð þegar þar að kemur.“

Guðrún bendir á að Rauði krossinn í síma 1717 og á vefsíðunni 1717.is veiti fólki í sjálfsvígshugleiðingum og aðstandendum ráðgjöf og liðsinni og eins Pieta-samtökin og heilsugæslan. Sorgarmiðstöð liðsinni aðstandendum þeirra sem taki eigin líf. 

Nokkuð fjármagn var veitt til forvarna fyrir nokkrum árum en það er tímabundið til áramóta 2022. Guðrún Jóna hvetur til að málefninu verði veitt sú athygli sem því ber. 

„Og ég beini því bara hér til stjórnvalda og þeirra sem eru að brölta í framboði að setja þetta inn í sín kosningamál, að sinna þessu mikilvæga málefni.“ Allir eru hvattir til að kveikja á kerti klukkan átta í kvöld til að minnast þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi.