Stórkostleg tilfinning og Evrópuævintýri næstu árin

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Stórkostleg tilfinning og Evrópuævintýri næstu árin

09.09.2021 - 20:51
Kvennalið Breiðabliks í fótbolta vann glæst afrek í kvöld þegar liðið tryggði sig áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með samtals 4-1 sigri á króatísku meisturunum í Osijek.

„Þetta er bara stórkostleg tilfinning, aðallega tilfinning og geggjað að vera komin í pottinn,“ segir Agla María Albertsdóttir. 

Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli ytra í síðustu viku. „Það munar miklu að vera hérna á Kópavogsvelli og með stuðningsmennina okkar. Það skiptir öllu máli. Og að spila á sléttum velli og geta þannig nýtt almennilega okkar styrkleika.“

Það er ljóst að tímabilið lengist til muna hjá Blikum. „Það er bara geggjað, algjör snilld að vera að fara að spila fram í desember. Ég er mjög spennt fyrir Barcelona [sem kemur til greina sem mótherji] en þetta eru allt geggjuð lið og hrein forréttindi að fá að mæta svona liðum.“

Mynd: MummiLú / RÚV

„Þetta er bara virkilega sætt að gera þetta, stelpurnar eru að skrifa ákveðinn kafla í sögunni að komast í Meistaradeildina. Þetta eru einhverjir peningar og náttúrulega bara mikil upphefð,“ sagði Vilhjálmur Haraldsson þjálfari Breiðabliks eftir leikinn.