Breyta matseðlum skóla eftir úttekt — „Barn síns tíma“

09.09.2021 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur ákveðið að gera breytingar á matseðlum leik- og grunnskóla bæjarins í kjölfar úttektar sem gerð var á gæðum og næringargildi skólamáltíða. Í úttektinni sagði að matseðlarnir væru svolítið „barn síns tíma“. Breytingarnar fela meðal annars í sér að auka magn grænmetis, tryggja að feitur fiskur sé oftar í boði sem og trefjarík fæða.

Athugasemdir hjúkrunarfræðings komu skrið á málið

Umræðan um gæði og næringargildi skólamáltíða á Akureyri varð hávær í upphafi árs þegar hjúkrunarfræðingur, sem einnig er foreldri barns í bænum, sagði í pistli og síðar í fréttum Rúv að bærinn færi gegn tilmælum landlæknis með því að bjóða börnum í leik- og grunnskóla upp á unnar kjötvörur og rautt kjöt í miklu magni.

Sjá einnig: „Ég vil að Akureyrarbær taki út allar unnar kjötvörur”

Ýmislegt sem mátti laga

Því hafnaði bærinn en ákvað að láta utanaðkomandi aðila framkvæma úttekt á matseðlum leik- og grunnskóla. Það var svo í vor sem Sýni ehf. barst beiðni frá Fræðslusviði Akureyrarbæjar um að reikna út næringargildi skólamáltíða hjá Akureyrarbæ. Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir fræðsluráði 23. ágúst. Þar  kemur fram að þó svo að almennt væri niðurstaðan nokkuð góð þá mætti ýmislegt betur fara. Meðal annars mætti auka vægi grænmetis og minnka kjöt á matseðlum. 

Sjá einnig: „Erum ekki að hætta með kjöt í mötuneytum skólanna“

Meira grænmeti og minna kjöt

„Þegar horft er á sameiginlega matseðla svona heilt yfir þá telur undirrituð þá vera svolítið „barn síns tíma“. Uppfæra þyrfti eitt og annað í samræmi við framboð og eftirspurn dagsins í dag. Leggja þyrfti meiri áherslu á; minna kjöt og meira grænmeti. Meira mætti vera af grófu, sem og linsum og baunum. Leggja þyrfti áherslu á blandaða rétti sem oft og tíðum gætu verið hollari, bæði fyrir líkamann og umhverfið,“ segir í úttektinni. 

Bærinn gerir breytingar

Málið var svo tekið fyrir á fundi fræðsluráðs í vikunni þar sem Erna Rós Ingvarsdóttir verkefnisstjóri leikskóla kynnti niðurstöður og tillögur til úrbóta. Þær eru meðal annars: 

  • Aukið magn grænmetis og salats og áhersla lögð á fjölbreytni og meiri “lit”
  • Tryggja að feitur fiskur sé í boði a.m.k. 2x í mánuði
  • Auka hlutfall trefjaríkra matvæla
  • Minnka hlut matvæla með mettaða fitu

Fræðsluráð samþykkti á fundum breytt fyrirkomulag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Eyrún Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur