„Átta mig á að það hefur verið áfall að eignast mig“

Mynd: RÚV / RÚV

„Átta mig á að það hefur verið áfall að eignast mig“

09.09.2021 - 09:00

Höfundar

„Ég held ég hafi verið ljúfur en óþroskaður. Að ég hafi gert mistök og verið stundum of harður,“ segir Atli Rafn Sigurðarson um föðurhlutverkið. Hann var aðeins tvítugur þegar hann hélt á frumburðinum á fæðingardeildinni. Þeir Sigurbjartur Sturla Atlason eru góðir vinir í dag og leika saman í nýfrumsýndri Rómeó og Júlíu í Þjóðleikhúsinu. Pabbinn felldi tár af stolti eftir frumsýninguna.

Atli Rafn Sigurðarson var aðeins tvítugur og tíu daga gamall þegar hann fékk í hendurnar nýfæddan frumburð sinn, Sigurbjart Sturlu Atlason. Í dag eru 29 ár liðin frá þeim degi og þeir byrjaðir að leika saman, um þessar mundir á stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem Sigurbjartur, eða Bjartur eins og hann nánustu kalla hann, fer með titilhlutverkið í Rómeó og Júlíu. Atli leikur föður Merkútíós, besta vinar Rómeós. Feðgarnir segjast alltaf hafa verið vinir, í samtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1. „Ég upplifi að við höfum alltaf gengið í takt,“ segir Atli.

Langþráður draumur en áfall í senn

Sjálfur kveðst hann í raun hafa verið barn sjálfur þegar Bjartur fæddist, en föðurhlutverkið var samt eitthvað sem hann hafði lengi dreymt um. „Ég var rétt orðinn stúdent og man ósköp vel þegar ég sat með hann í fanginu á fæðingardeildinni, óskaplega glaður því ég hafði hlakkað til að verða pabbi frá því ég man eftir mér,“ rifjar Atli upp. „Það rann upp fyrir mér að þessi langþráði draumur hafði ræst, en það var ákveðið áfall í senn.“

Hann áttaði sig jafnframt á því að vegna þess hve ungur hann var sjálfur myndi ekki líða á löngu áður en feðgarnir næðu jafningjasambandi. „Og það gerðist nokkuð fljótt.“

Mættust fljótt sem jafningjar

Bjartur er alinn upp við að skiptast á að vera hjá foreldrum sínum í viku og viku í senn. „Mér fannst það bara fínt. Mörgum líður eins og það sé eitthvað verra en ég held að það sé það bara alls ekki.“

Og í kringum menntaskólaaldur segir Bjartur að þeir feðgar hafi orðið góðir vinir og sem jafningjar. Þeir hafa verið góðir vinir síðan. „Það er öðruvísi þegar maður er barn, þá er maður vinur en maður veit samt ekki neitt.“

Biðst afsökunar á að láta eigin tilfinningar bitna á syninum

Atli bendir þó á að Bjartur hafi ekki verið gamall þegar hann áttaði sig á því að þeir deildu áhugamálum og hefðu um endalaust að tala. „Það auðvitað tengir foreldra og börn á annan hátt.“

Sjálfur kveðst hann hafa verið ljúfur uppalandi sem nálgaðist son sinn á vinaforsendum en að hann hafi líka sjálfur verið að taka út þroska sem hafi valdið því að hann brást ekki alltaf eins við og hann myndi gera í dag. „Ég held ég hafi bæði verið ljúfur en líka óþroskaður. Að ég hafi gert mistök og verið stundum of harður. Látið mínar eigin tilfinningar bitna á blessuðu barninu,“ segir hann, snýr sér að Bjarti og brosir. „Fyrirgefðu elskan.“

Ef Bjartur ætti níu ára son - „guð blessi það barn“

Bjartur bendir á að flekklaust uppeldi sé ekki til. „Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að vera fullkomið foreldri,“ segir hann. „Ég er núna að verða 29 ára og ef ætti 9 ára barn, bara guð blessi það barn ef það væri til. Þetta er náttúrulega svakaleg staða. Ég hef áttað mig á því á seinni árum hvað það hefur í raun verið áfall að eignast mig.“

Margir af jafnöldrum sonarins héldu líka að þeir væri bræður en ekki feðgar. „Ég man eftir því hvað hann varð móðgaður og sagði bara: Nei, þetta er pabbi minn,“ segir Atli sem bætir við að Bjartur hafi ekki verið orðinn mjög gamall þegar hann var sjálfur farinn að ala upp föður sinn á vissum sviðum.

Með betri tilfinningagreind en foreldrarnir

Bjartur segist sjálfur vera nokkuð jöfn blanda af föður sínum og móður, Berglindi Maríu Tómasdóttur flautuleikara og tónskáldi. „Ég er einbeittur og ör, það er pabbi, en hvatvísin finnst mér líka alveg vera pabbi,“ segir Bjartur. „Ég myndi klárlega segja að ég sé líkur foreldrum mínum og er mikil blanda í útliti, fólki finnst ég líkur pabba en hittir svo mömmu og fær sjokk. Í skapi og lund eflaust báðum, en ég er kannski með aðeins betri tilfinningagreind en þau bæði. Heldurðu það ekki?“ Bjartur snýr sér að föður sínum. „Ég læt það standa bara,“ segir Atli.

Fór að skæla eftir frumsýninguna

Bjartur er ekki óvinur sviðsljósinu. Hann lék í fjölmörgum leiksýningum sem barn og er forsprakki hljómsveitarinnar Sturla Atlas þar sem hann bæði semur og syngur vinsæl r og b lög ásamt félögum sínum. Þeir feðgar hafa reyndar áður staðið á sviði, áður en Rómeó og Júlía rataði á fjalirnar, því Bjartur lék Pétur íkornastrák í Dýrunum í Hálsaskógi þegar pabbi hans fór með hlutverk Lilla Klifurmúsar. En að standa saman á sviði á frumsýningunni þar sem þeir fóru báðir með stór hlutverk feðgarnir var öðruvísi upplifun, og varð til þess að Atli Rafn komst við. „Ég fór alveg pínulítið að skæla eftir frumsýninguna þegar maður tengdi þetta allt. Ég verð að játa að það fóru í gegnum mann sérstakar tilfinningar þegar þetta var að gerast,“ segir Atli. „Það helltust yfir mann tilfinningar sem maður hafði ekki upplifað áður.“

Tennis og hestamennska

Það hafði verið draumur hjá Bjarti að leika Rómeó og hann var virkilega spenntur fyrir hlutverkinu þegar hann sá það auglýst. „Ég myndi samt ekki viðurkenna það ef ég hefði ekki fengið hlutverk,“ segir hann sposkur. Hann hafði þá verið útskrifaður úr Listaháskólanum í fjögur ár og hungraður í verkefni, ekki síst þetta. „Ég vissi að ég vildi mjög mikið gera þetta og fór alveg í svona war-mode, að bara negla það. Ég fór í stríðsgallann.“

Stríðsgallinn borgaði sig sannarlega og það hefur verið mikið að gera. En þegar feðgarnir eru ekki að æfa eða sýna og fá kærkomið frí sinna þeir áhugamálum sínum. Bjartur æfir tennis en Atli er í hestamennsku. „Ég stunda hestamennsku og það tekur heilmikið pláss í lífi mínu. Það eru lifandi skepnur sem þarf að sinna,“ segir Atli um hestana sína. „Kærastan mín er líka rosaleg hestakona en ég er bara að spila tennis,“ skýtur Bjartur inn.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við feðgana Arla og Sigurbjart í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Leiklist

Ofsafengin ást

Leiklist

„Þarna tók lífið fram fyrir hendurnar á mér“

Tónlist

Bríet og Sturla Atlas frumflytja lag úr Rómeó og Júlíu