Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ferðamenn kærulausari við flokkun á sorpi

07.09.2021 - 11:15
Mynd: EPA / EPA
Flokkun úrgangs var verri á Akureyri í sumar en í vetur. Orsökina má rekja til mikils fjölda ferðamanna sem dvaldi í bænum í sumar.

Lélegri flokkun

Helgi Pálsson er rekstrarstjóri Terra en fyrirtækið sér um sorphirðu á Akureyri og nágrenni. Hann segir að munur sé á gæðum flokkunar yfir sumarið.  „Ferðamennirnir sem okkur sækja hingað, þeir eru kannski ekkert að flokka úrganginn eins vel og íbúar gera þegar þeir eru í sinni í hefðbundnu rútínu með heimilishaldið.“

Akureyringar hafa verið með flokkunarkerfi í yfir áratug, þar sem einungis má setja óendurvinnanlegt heimilissorp út í ruslatunnu auk þess sem lífrænum úrgangi er safnað sérstaklega. Öðru rusli skila bæjarbúar á sérstakar grenndarstöðvar sem eru víða um bæinn. Helgi segir að enn sé þó verið að glíma við sömu verkefnin og í upphafi en það eru orlofshúsin í bænum. „Það gengur svolítið erfiðlega að ná til þeirra sem þar ráða,“ segir Helgi.

„Væri þægilegra ef kerfið væri alls staðar eins“

Flokkun á sorpi er með mismunandi sniði á milli sveitarfélaga en í grunninn svipuð. Helgi segir suma verða svolítið villta þegar kemur að flokkuninni. „Kynningarefni er þó allt til staðar og fólk veit auðvitað innst inni að það er ekki að gera rétt en skýlir sér svolítið á bak við að það viti ekki eða þykist ekki vita.“

Helgi segir að ábyrgðin liggi þó að miklu leyti hjá þeim sem leigja út húsnæði til ferðamanna. Rut Jónsdóttir, forstöðumaður umhverfis- og sorpmála hjá Akureyrarbæ segir að þeir sem leigja út húsnæði eigi að hafa flokkunarílát fyrir þá sem gista í þeirra einingum. Rut telur að hjá mörgum þeirra sé ekki hugað nógu vel að endurvinnslumálum.

Hún segir að gefnar hafi verið út einfaldar leiðbeiningar bæði á íslensku og ensku til að reyna að einfalda ferðamönnum flokkunina en það virðist ekki duga til. „Auðvitað væri best að það væri eins alls staðar og maður þyrfti ekki að læra þetta upp á nýtt en þetta er allt að koma held ég,“ segir Rut.