Að minnsta kosti 23 manns, þar af þrjú börn, fórust þegar rúta ók út af fjallvegi og hrapaði niður snarbratta hlíð í Bólivíu í gærkvöld, að sögn lögreglu og vitna.
Rútan, sem flutti 33 manns, hrapaði um 400 metra í Cochabamba fylki um klukkan ellefu á mánudag.
„Ég steig á bremsuna en þær virkuðu ekki,“ var haft eftir ökumanni rútunnar en kona hans lést í slysinu.
Meðal hinna látnu voru einnig þrjú börn á aldrinum eins, tveggja og sex ára, að því er fram kemur í yfirlýsingu lögreglunnar á Facebook. Enn á eftir að bera kennsl á fimm önnur fórnarlömb, kemur þar fram.
Þeir 13 sem slösuðust í óhappinu, sem varð um 50 kílómetra frá höfuðborgarsvæðinu, voru fluttir á sjúkrahús í nágrenninu.
Lögreglan sagði að verið væri að rannsaka orsök slyssins en mannskæð bílslys eru tíð í Bólivíu. Í svipuðu atviki í mars á þessu ári létust 20 manns og í september á síðasta ári létust 19 þegar rúta ók fram af kletti annars staðar í landinu.