Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Landspítali semur við Klíníkina

Mynd: RÚV / RÚV
Landspítali hefur samið við Klíníkina um aðstöðu til gera á annað hundrað aðgerðir til að stytta biðlista. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkur samningur er gerður og forstjóri Landspítala segir að frekara samstarf sé til skoðunar. Heilbrigðisráðherra segir þetta mikilægt skref sem samræmist opinberri heilbrigðisstefnu.

Aðgerðirnar sem um ræðir eru ófrjósemisaðgerðir og aðgerðir á eggjastokkum. Læknar Landspítala munu gera aðgerðirnar, en spítalinn greiðir fyrir aðstöðu og utanumhald í Klíníkinni. Nú er biðin eftir þessum aðgerðum sex til níu mánuðir, en stefnt er að því að hún verði nokkrar vikur. Skrifað var undir samninginn í dag, hann gildir til 1. nóvember og stefnt er að því að fyrstu aðgerðirnar verði gerðar á mánudaginn.

Páll Matthíason, forstjóri Landspítala, segir að heildarkostnaðurinn við samningin sé í kringum 20 milljónir króna og segir að hefðu aðgerðirnar verið gerðar á Landspítala hefði kostnaðurinn verið svipaður.

Nú eru biðlistar eftir fjölda aðgerða - hvers vegna þessar aðgerðir? „Einhversstaðar þarf að byrja,“ segir Páll. „Þetta eru aðgerðir sem eru vel skilgreindar, þetta eru aðgerðir þar sem biðlisti hefur hlaðist upp og þar sem við teljum mikilvægt að stíga hratt inn í. Þarna er leið þar sem verið er að nota aðstöðu og þekkingu og tækjabúnað sem þegar er til staðar í samfélaginu. Þannig að ég tel að þetta sé mjög skilvirk leið til að tala inn í þessa biðlista.“

Verið að skoða samninga um fleiri tegundir aðgerða

Er von á fleiri samningum af svipuðum toga? „Ef þetta gengur vel, þá er það vel hugsanlegt. Og þetta er bara í anda þess að hið opinbera kerfi beri ábyrgð.“

Páll segir að nú sé verið að skoða framhaldið og hvort samið verði um fleiri tegundir aðgerða. Hann segir ekki tímabært að segja um hvaða aðgerðir um sé að ræða, en það séu þær sem langur biðlisti er í. 

Hjálmar Þorsteinsson yfirlæknir á skurðstofum Klíníkurinnar segir að þetta skipti mestu máli fyrir fólkið sem hefur þurft að bíða lengi eftir aðgerðum. „Sem sjá nú fram á skjótari lausn en vonir stóðu kannski til í upphafi,“ segir hann.

Stefnubreyting í COVID

Undanfarin ár hefur Klíníkin ítrekað boðist til að taka að sér aðgerðir til að létta á biðlistum en það hefur ekki verið þegið hingað til. Hjálmar segir að hugsanlega hafi orðið stefnubreyting þegar Klíníkin kom Landspítala til aðstoðar í síðasta mánuði þegar mikið álag var á spítalanum vegna COVID-19.  „Ég held að þetta hafi kannski byrjað þannig þegar þetta ástand var í lok ágústmánaðar þar sem við lögðum til starfsfólk , þá opnaðist samræðugrundvöllur,“ segir Hjálmar.

Samningurinn er gerður á grundvellli laga um heilbrigðisþjónustu um að ríkisreknum heilbrigðisstofnunum sé heimilt að gera samninga við aðra um einstök verkefni. „Við lítum svo á að þetta sé mikilvægt skref,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og segir samninginn samræmast opinberri heilbrigðisstefnu.

„Það eru ekki Sjúkratryggingar Íslands sem eru að kaupa þessa þjónustu úti í bæ heldur er það spítalinn sjálfur sem gengur til þessara samninga,“ segir Svandís.

Finnst þér koma til greina að gera fleiri samninga af þessum toga? „Ég ætla ekkert að tjá mig um það. Ég held að það þurfi að taka afstöðu til þess hverju sinni,“ segir Svandís.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir