Ástralir fá Pfizer: „Takk Boris þú átt hjá mér bjór“

epa09444452 Australian Prime Minister Scott Morrison speaks to members of the media during a press conference before a national cabinet meeting, at Parliament House in Canberra, Australia, 03 September 2021.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Bretar hafa ákveðið að senda fjórar milljónir skammta af bóluefni Pfizer til Ástralíu. Áströlum ber þó að endurgjalda greiðann með jafnmörgum skömmtum bóluefnis að ótilgreindum tíma liðnum.

Þetta tilkynnti Scott Morrison forsætisráðherra Ástralíu í dag en mikil útbreiðsla Delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur valdið mikilli fjölgun tilfella og andláta af völdum COVID-19.

Útgöngubann ríkir í nokkrum stærstu borgum Ástralíu og lítið útlit fyrir að því linni á næstunni. Um eins og hálfs árs skeið hafa íbúar landsins mátt sætta sig við að útgöngubann sé sett á og aflétt til skiptis.

Um fjörutíu af hundraði Ástrala teljast fullbólusett en heilbrigðisyfirvöld hafa helst boðið upp á bóluefni AstraZeneca sem framleitt er í landinu. Nokkur tregða hefur verið meðal Ástrala að þiggja það vegna fárra en mjög umtalaðra tilfella blóðtappa í kjölfar bólusetninga.

Morrison kveðst afar þakklátur kollega sínum Boris Johnson fyrir bóluefnasendinguna og sagðist skulda honum bjór fyrir vikið. „Takk Boris, þú átt hjá mér bjór.“

Áströlum ber þó að gjalda Bretum sendinguna í sömu mynt, einhvern tíma síðar. Yfir eitt þúsund greinast nú daglega með COVID-19 í Nýja Suður Wales og í dag var tilkynnt um tólf dauðsföll af völdum sjúkdómsins.