Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yngstu kjósendurnir mest til hægri í efnahagsmálum

01.09.2021 - 22:08
Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / RÚV
„Dvínun í kjörsókn er nær alfarið keyrð áfram af yngri kynslóðum. Elstu kynslóðirnar eru alveg jafn líklegar til að kjósa og áður,“ segir Hulda Þórisdóttir, stjórnmálasálfræðingur. Þá segir hún að flokkshollusta sé minni hjá ungu fólki sem sé jafnframt hægrisinnaðra í efnahagsmálum en eldri aldurshópar.

Sigríður Hagalín ræddi við Huldu og Tinnu Isebarn, stjórnmálafræðing og framkvæmdastjóra Landssambans ungmennafélaga, um Alþingiskosningarnar í Kastljósi í kvöld.

„Ungt fólk er farið að tileinka sér óhefðbundna leið til að taka þátt í stjórnmálum. Þau eru rosalega virk. Þau eru mjög áhugasöm en þau eru samt einhvern veginn ekki að skila sér á kjörstað,“ segir Tinna.

Hulda segir að niðurstöður Íslensku kosningarannsóknarinnar leiði í ljós að yngsti aldurshópurinn, 18 til 25 ára, sé hægrisinnaðasti kjósendahópurinn þegar kemur að efnahagsmálum, „samanborið við alla aðra aldurshópa en hann er einnig sá frjálslyndasti og alþjóðasinnaðasti skulum við segja,“ segir hún.

„Það kemur kannski á óvart því það er þessi hugmynd að ungt fólk sé vinstrisinnað og það er síðan ekkert endilega víst að þessi málefnaviðhorf endurspeglist endilega í hvaða flokk fólk kýs,“ segir Hulda.