Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Klara Bjartmarz segir ekki ástæðu til að segja upp

30.08.2021 - 22:41
Innlent · #Metoo · KSÍ · MeToo
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, segir að fráfarandi stjórn hafi ekki gert þá kröfu að hún segði upp. Boðað verður til aukaþings og verður það haldið fjórum vikum eftir að boðað er til þess. Stjórnin muni sitja áfram fram að aukaþingi. Klara hefur starfað hjá KSÍ frá 1994 og verið framkvæmdastjóri frá 2015. „Ég klár í það að halda áfram og mun takast á við það með nýrri stjórn þegar þar að kemur,“ segir Klara.

Hver er þín staða, ætlar þú að sitja áfram?

„Ég ætla að sitja áfram. Ég er ráðin starfsmaður KSÍ. Búin að starfa hér í 27 ár sem er dágóður tími. Ég sá um kvennalandsliðið fyrstu 20 árin. Þannig að ég klár í það að halda áfram og mun takast á við það með nýrri stjórn þegar þar að kemur,“ segir Klara.

Er einhugur um það í fráfarandi stjórn að þú sitjir áfram?

„Fráfarandi stjórn hefur ekki svo ég viti til fjallað um mín störf,“ segir Klara. 

Nú sendi faðir Þórhildar Gyðu, sem var í viðtali við RÚV á föstudaginn, tölvupóst sem fór á stjórn KSÍ og þar á meðal á þig, í mars 2018 og þar er málinu sem varðar landsliðsmanninn lýst. Þú hlaust þá að vita um þessi mál?

„Nú, þarf ég að leiðrétta þig. Þessi tölvupóstur var ekki sendur á stjórnarmenn. Hann var sendur á starfsmenn KSÍ,“ segir Klara.

En hann var sendur á þig?

„Alveg hárrétt. Málið fór til Guðna Bergssonar, þáverandi formanns KSÍ, sem flutti málið í ferli. Það var sett í ákveðið ferli á þeim tíma og ég vissi af málinu hjá Guðna. Ég sá ekki ástæðu til þess þar sem Guðni var með málið til umfjöllunar og í ferli, að ég færi að vinna í því líka. Það var alveg í fullri sátt og samvinnu að Guðni myndi hafa ábyrgð á því máli og þar með gekk ég út frá því að málið væri í ferli,“ segir Klara.

Þú gekkst ekkert eftir því að vita hvernig því hefði lokið?

„Nei, þetta var þannig að við vorum stödd úti í Bandaríkjunum og ég fór fyrr heim. Það voru tveir leikir. Guðni var áfram með liðinu en ég fór heim að sinna öðrum verkefnum. Þetta var í undirbúningi fyrir HM og ég viðurkenni það að ég spurði ekki Guðna í hvaða ferli málið fór. En Guðni tjáði mér það að málið væri komið í ferli, og ég veit ekki hvort ég á að segja afgreitt, eða væri alla vega komið í ferli hjá viðeigandi aðilum. Og ég gerði ekkert frekar í því,“ segir Klara.

Er þetta eina brotið sem þú hefur vitað um?

„Já og nei. Ég heyrði af því í sumar af þessari hópnauðgun. Það mál var líka flutt í ferli. Það er alveg ljóst, við höfum sagt það opinberlega, það gekk ekki nógu vel hjá okkur. Það er ein af ástæðum þess að við erum hér í kvöld,“ segir Klara. 

En beittir þú þér eitthvað persónulega í þeim málum til þess að fá málalyktir?

„Í því máli, mér finnst þá leiðinlegt að vera alltaf að varpa ábyrgðinni á aðra, þá var ég ekki með liðinu þegar við fáum ábendingu um þetta. Ég kom þeirri ábendingu strax á framfæri við aðila sem ætluðu líka að fara með það mál í ferli. Þar með leit ég þannig á að afskiptum mínum af málinu væri lokið. Við höfum unnið þannig að við erum ekki að vinna málið á mörgum vígstöðvum í einu. Þessi brot eru viðkvæm, þau eru persónuleg. Ég get ekki séð að það sé hagur fyrir neinn aðila að fleiri aðilar séu að vinna í málinu. Þarna var málið komið í ferli hjá ákveðnum aðila innan sambandsins og ég eftirlét viðkomandi það, með réttu eða röngu. Ég hélt að málið væri komið í ferli,“ segir Klara.

Hvað hafa komið margar tilkynningar til ykkar allra síðustu daga um meint brot?

„Ég hef ekki fengið neina. En ég veit að stjórn KSÍ fékk tilkynningu eða ábendingu í fyrrakvöld, ég vona að ég sé að fara með rétt mál að það hafi verið í fyrrakvöld. Það var strax sett í ferli eða fengin ráðgjöf hjá þessum nýja starfshóp sem er við það að taka til starfa. Það kom til ákveðins stjórnarmanns og viðkomandi stjórnarmaður flutti það í ferli til þess aðila sem nefndur hefur verið og tilkallaður og tekið að sér að vera formaður þess starfshóps sem um ræðir,“ segir Klara.

Er þetta mál gagnvart landsliðsmanni líka?

„Ég er hreinlega ekki viss,“ segir Klara.  „Kynferðisbrotamál eru viðkvæm mál og þau eiga ekki að vera þvælast milli manna,“ segir Klara.