Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Plast aðaluppistaða rusls á ströndum landsins

29.08.2021 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: Public Domain
Á ströndum Íslands er plastúrgangur mikið vandamál og virðist ekki á undanhaldi. Markmiðið með vöktunarátaki Umhverfisstofnunar á ströndum landsins er að koma í veg fyrir að úrgangur lendi í hafinu.

Fylgjast með samsetningu ruslsins

Umhverfisstofnun hefur vaktað rusl á ströndum Íslands frá árinu 2016. Ísland er bundið samningum um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins og er vöktunin hluti af honum og vinnur Umhverfisstofnun samkvæmt ákveðinni aðferðafræði samningsins. Vöktunin fer fram á 7 ströndum á Íslandi og er afmarkað 100 metra svæði þar sem rusli er safnað, það flokkað og greint. Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun heldur utan um verkefnið.

„Tilgangurinn er að fylgjast með þróun á magni á samsetningu þess rusls sem berst á strandir Íslands. Við förum bara og tínum allt rusl af þessu 100 metra svæði og svo er ruslið allt flokkað eftir efnivið,“ segir Sóley.
 

Plast og aftur plast

Starfsmenn Umhverfisstofnunar setja niðurstöðurnar inn í gagnagrunn og þar er fylgst með þróun á úrgangsmálum við strendur Norðaustur-Atlantshafsins. Markmiðið sé að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum.

Ruslið sem safnast er af misjöfnum toga eftir því hvar það er tínt. Mjög mikið af veiðarfærum eru á ströndum þar sem útgerð er en á höfuðborgarsvæðinu er meira rusl tengt neyslu. Plast af öllum toga, er langstærsti hluti þess sem safnast.

„Plastið er ekkert að fara neitt niður. Það er náttúrulega yfirleitt í kringum 65 og upp í 90 eða 100 prósent rusls á hverri strönd. Magnið af rusli er ekki að minnka,“ segir Sóley.

Þarf að koma í veg fyrir að ruslið skili sér í hafið

Vöktunin er í raun ekki hreinsunarátak heldur snýst um að koma í veg fyrir að rusl lendi í hafinu því hreinsun strandlengjunnar, ef úrgangur heldur áfram að vera jafn mikill og nú, er óraunsætt verkefni. Sóley segist ekki geta gert sér í hugarlund hversu mikla vinnu þyrfti til að halda ströndum landsins hreinum.
„Það þyrfti stanslaust að vera að fara allan hringinn, alltaf,“ segir Sóley.