Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kostir og gallar sameiningar metnir

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Sameining sveitarfélagsins Akrahrepps og Skagafjarðar er enn til umræðu. Ekki hefur þó verið ákveðið hvort farið verði í formlegar viðræður.

Íbúafundir í báðum sveitarfélögum

Í töluverðan tíma hafa verið uppi hugmyndir um að sameina sveitarfélögin tvö. Íbúafundir hafa farið fram í báðum sveitarfélögum. Sveitarstjórnir þeirra höfðu fengið ráðgjafa til að fara yfir mat á kostum, göllum og tækifærum í sameiningu sveitarfélaganna og voru þær kynntar á fundunum.

Skiptar skoðanir um sameiningu

Akrahreppur er eitt af minnstu sveitarfélögum landsins með um 200 íbúa. Ekkert þéttbýli er í sveitarfélaginu og enginn skóli er rekinn þar heldur er grunnskólabörnum ekið í Varmahlíðarskóla sem er í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps, segir að íbúafundurinn hafi verið mjög góður og mæting góð. Hún segir skiptar skoðanir í sveitarfélaginu þar sem sumir eru jákvæðir, aðrir neikvæðir og svo þeir sem eru þarna á milli sem telja að sameining sé óhjákvæmileg vegna smæðar sveitarfélagsins.

Næstu skref eru að sveitarstjórnirnar hittist og taki ákvörðun um hvort fara eigi í formlegar viðræður eða ekki. Hrefna segir að það verði fljótlega.