„Þetta var hræðilegt símtal að fá“

Mynd: Júlía Rós Atladóttir / Aðsend

„Þetta var hræðilegt símtal að fá“

26.08.2021 - 09:26

Höfundar

Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica var stödd í neðanjarðarlest í Mílanó þegar dóttir hennar hringdi og tilkynnti að faðir hennar væri meðvitundarlaus með krampa. Eiginmaður Júlíu var mættur á gjörgæslu skömmu síðar og fjölskyldunni sagt að kveðja hann. Hann er þó á fótum í dag en lifir með ólæknandi sjúkdóm.

Júlía Rós Atladóttir er framkvæmdastjóri Distica. Hún tók við starfinu í maí á síðasta ári á miklum umbrotatímum en þá voru liðnir tæpir þrír mánuðir síðan fyrsta COVID smitið greindist á Íslandi. 28. desember var stór dagur hjá þjóðinni og hjá Júlíu þegar fyrirtæki hennar tók við fyrstu bóluefnaskömmtunum, og hafa þau annast alla vörslu og dreifingu bóluefnis við COVID hér á landi síðan. Dagurinn var sannarlega eftirminnilegur. „Ég man þegar fyrsti skammturinn kom, þá leit ég yfir vörumóttökuna hjá okkur og hugsaði: er þetta virkilega að gerast?“ rifjar hún upp. Fyrr en varði voru Svandís og Þórólfur mætt í vörumóttökuna og þar með hófst ótrúleg vegferð, „en ótrúlega skemmtileg og lærdómsrík. Manni þykir vænt um hvað allir hafa unnið þétt saman í þessu bóluefnaverkefni,“ segir hún í samtali við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. „Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt þó það hafi verið mjög erfitt líka.“

Mikil mömmustelpa en erfitt að horfa upp á hana hverfa í heim alzheimers

Júlía er fædd og uppalin á Eskifirði en lítur á Akureyri, þaðan sem foreldrar hennar eru, sem sinn helsta heimabæ. Hún er yngst í hópi fjögurra systra og það var líf og fjör á heimilinu. Systurnar eru enn í dag mjög nánar þó hún telji líklegt að hún hafi verið pínu óþolandi litla systir, „sem vildi vera með í öllu þegar systur mínar voru minna til í að hafa mig með,“ segir hún kímin. En Júlía var fyrst og fremst mömmustelpa. Hún hékk í pilsfaldinum hjá móður sinni alltaf þegar hún var heima og ef hún var ekki að því var að hún var að leita að henni. „Elsku mamma er núna með alzheimer, að hverfa inn í þann heim, þannig að það tekur á að horfa upp á það. En hún er einstaklega lífsglöð og það kemur henni ansi langt,“ segir Júlía. Metnaðinn kveðst hún hafa fengið frá föður sínum sem hvatti dætur sínar til að mennta sig og ná árangri. „Mamma er rosa góð, og maður fékk það frá henni, og hörkuna frá pabba,“ segir Júlía.

Fékk áhuga á lyfjablöndun í Austur Skaftafellssýslu

Hún fór í framhaldsskóla í Austur Skaftafellssýslu í pínulítinn skóla og þar kviknaði áhuginn á lyfjum og heilbrigðismenntun. Eftir tvö ár í menntaskóla hélt hún til Reykjavíkur til að læra lyfjatækni. Námið er ekki eins langt og lyfjafræði en það snertir svipaða fleti. „Við fórum í lyfjablöndun og lærðum allskonar. Þetta var ágætis grunnur,“ segir Júlía.

Hún fékk starf í apóteki í Kringlunni og síðar í Omega Farma í Kópavogi við að vigta hráefni, blanda og slá í töflur. „Ég var þar í nokkur ár og þetta var eins og lítil fjölskylda. Ég fann að þetta átti vel við mig,“ segir Júlía. Fyrirtækið var svo selt Actavis þar sem Júlía vann í tíu ár. „Þetta fór úr því að vera lítið íslenskt framleiðslufyrirtæki í þetta risafyrirtæki sem Actavis var,“ segir Júlía. „Þar var Róbert Wessman forstjóri og hann leiddi þetta fyrirtæki í ótrúlega vegferð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Það var stór dagur í Distica þegar fyrsti bóluefnaskammturinn barst.

Orðin verkefnastjóri tæplega þrítug

Hún segir að það sé mesta furða hve vel hefur gengið að halda uppi lyfjaframleiðslu á Íslandi bæði vegna smæðar og flókinna vöruflutninga. „En ég held að þetta séu bara íslenskir ofurhugar. Við getum allt sem við ætlum okkur og ég held að það sé aðalskýringin,“ segir hún. Hjá Actavis var henni boðin verkefnastjórastaða yfir teymi sem þróaði lyf. Þá var hún ekki orðin þrítug en farin að stýra teymi sjö sérfræðinga. Í teyminu voru meðal annars lyfjafræðingar og hráefnafræðingar sem finna hráefni, auk þess sem teymið framkvæmdi klínískar rannsóknir þar sem lyf eru prófuð á sjúklingum. „Það er mikil reynsla og menntun hjá þessu fólki. Þarna eru doktorar í lyfjafræði og ég er bara: er ég að fara að stýra þessu fólki?“

En þó staðan virtist yfirþyrmandi lét Júlía slag standa. „Ég gríp öll tækifæri sem gefast og þannig finnst mér lífið svo skemmtilegt,“ segir Júlía sem sinnir starfinu af mikilli auðmýkt. Hún gerði fólki grein fyrir að hún kynni að stýra verkefnum en að þau vissu meira um það sem ætti að gera. „Þannig er starf verkefnastjóra oft, maður kann að stýra verkefninu en ekki leiða þræðina. Þetta gekk frábærlega og það voru allir til í að vinna með mér.“

Börnin sögðust öll vera pabbastrákur og -stelpa

Júlía er fjögurra barna móðir og var með tvö börn lítil börn á heimilinu þegar hún ákvað að mennta sig meira. Það var og er nóg um að vera í starfi og á heimilinu. „Ég er einstaklega vel gift og væri aldrei í þessu starfi nema fyrir þær sakir. Maðurinn minn Hermann Sigurður Björnsson gerðist heimavinnandi húsfaðir þegar við vorum komin með tvö börn og ég ákvað að mennta mig meira,“ segir Júlía.

Hermann var því heima með börnunum mun meira en Júlía. Hún minnist þess að hafa verið að keyra með krökkunum á leið að kaupa í jólamatinn þegar hún heyrð elsta soninn segja úr aftursætinu: „Ég er pabbastrákur.“ Fyrr en varði tók yngri strákurinn undir og dóttir hennar líka: „Ég er pabbastelpa.“ Júlía er góð móðir sem sinnir börnunum vel en hún var bæði í námi og fullri vinnu og þá voru börnin meira í kringum föður sinn sem olli því að þau skilgreindu sig á þennan hátt.

Vaknaði við að eiginmaðurinn var í krampa

Hermann hefur starfað hjá Marel árum saman en hann veiktist fyrir þremur árum af lítt þekktum sjúkdómi.„Ég vakna um miðja nótt við að hann er í krampa. Þetta var ferlega óvenjulegt og skrýtið,“ rifjar Júlía upp um fyrstu ummerki sjúkdómsins.

Hún hringdi á sjúkrabíl og Hermann var í rannsóknum í tvær vikur en ekkert fannst að. Hermann var sendur heim og talið var að veikindin hefðu verið tilfallandi. Fjölskyldan vonaði að þessu væri lokið, en svo var ekki.

Þegar þetta gerist næst er Júlía stödd í lest í vinnuferð í Mílanó. „Þá hringir dóttirin og segir: pabbi er aftur orðinn veikur, hann var í krampa og er meðvitundarlaus.“ Júlía fann fyrir miklum vanmætti yfir að vera svo langt í burtu. „Þetta var hræðilegt símtal að fá og ég var stödd í neðanjarðarlest í Mílanó,“ segir Júlía. Hún náði litlu sambandi úr lestinni en sagði dóttur sinni að hringja í 112. Júlía ákvað að fara strax heim um leið og færi gafst. „Það lögðust allir á eitt og ég flaug heim og það var frábært að vera komin heim til hans.“

Var sagt að kveðja hann á gjörgæslunni

Hún segir að veikindi heimilisföðurins hafi verið mikið álag fyrir krakkana en líka þroskandi. „Þau vita hvernig á að bregðast við ef það er eitthvað með pabba þeirra,“ segir Júlía. Það kemur í ljós að Hermann er með ólæknandi æxli á nýrnahettum sem er lífshættulegur sjúkdómur.

Þegar hann veiktist aftur skömmu eftir þetta lenti hann á gjörgæslu. „Okkur var bara sagt að kveðja hann við rúmið því honum hélt áfram að hraka og hraka og það náðist ekki að stoppa veikindin,“ segir Júlía. En það tókst sem betur fer og Hermann lifir ágætis lífi í dag en vinnur ekki. Hann er því heima við og hefur tekið að sér hlutverk sem hann þekkir, að sjá um heimilið og börnin. „Ég hef því síðasta ár fengið algjörlega að einbeita mér að því að vinna þetta bóluverkefni og að taka við þessu fyrirtæki. Það er búið að vera algjör draumur,“ bætir hún við.

Hermann bauð útkeyrðri konu sinni til Spánar

Fyrir tveimur árum starfaði Júlía hjá Coca Cola þar sem álagið var oft og tíðum gífurlegt. „Ég fann bara að ég væri að fara yfir um, ég var alveg á brúninni og búin að fara að gráta í vinnunni á erfiðum fundi,“ segir hún. Það hafi ríkt mikið karlaveldi og starfsumhverfið var krefjandi. „Það var mikið um ferðalög og stundum vissi ég bara ekki í hvaða landi ég væri. Þetta var svo mikil keyrsla,“ segir Júlía.

Hermann brá því á það ráð að panta Spánarferð fyrir þau hjónin í tvær vikur án þess að bera það undir konu sína. „Ég hefði aldrei samþykkt það, ég var algjörlega á hamstrahjóli í geðveiki en ég held að það hafi alveg bjargað mér þarna. Það hefði getað farið illa.“ Júlía náði sér upp úr stressinu með slökun með eiginmanninum en hún er líka mikil útivistarkona sem fer í veiði og hleypur á fjöll til að halda sér í andlegu og líkamlegu formi.

Konur eru duglegar en það skilar þeim ekki nógu langt

Júlía er sem fyrr segir afar metnaðargjörn og ætlaði sér alltaf að stýra fyrirtæki. Hún er með meistaragráðu í stjórnun og gerði lokaverkefni um hvernig konur eiga að vera forstjórar í fyrirtækjum. „Ég hef alltaf verið með þetta á bak við eyrað og hef alla tíð verið á leiðinni í þetta starf sem ég er í núna,“ segir Júlía.

Í lokaverkefninu ræddi hún við konur í stjórnunarstöðum og komst að því að til þess að verða forstjóri þyrfti hún að efla tengslanetið. „Ég held að það sem við konur gerum oft er að vera rosalega duglegar í vinnunni og það er ekkert að skila okkur rosalega langt. Við erum brjálæðislega samviskusamar og vinnum rosalega vel og það er kannski næsti yfirmaður sem veit af því en það eitt og sér er ekki nóg ef maður ætlar að stýra fyrirtæki,“ segir hún.

Ógeðslega leiðinlegt að mingla í Hörpu

Júlía segir að áherslan á tengslanetið sé allavega að hluta til ástæða þess að karlmenn stýra flestum fyrirtækjum í landinu. Þegar það vanti næsta forstjóra sé staðan stundum auglýst, en oft sé látið nægja að hringja í næsta karl í tengslanetinu og bjóða honum starfið. Niðurstaða Júlíu eftir rannsóknina var að hún þyrfti að vera meira áberandi á meðal þeirra sem taka ákvarðanir um æðstu stöður.

„Þetta snýst um að vera out and about, hvort sem er á golfvellinum eða að fara í hittinga hér og þar. Ég man bara að einu sinni í Hörpu fyrir svona fimm sex árum þegar ég var að útskrifast úr þessu mastersnámi, þá bauð forstjóri fyrirtækisins mér með á hitting í Hörpu,“ rifjar Júlía upp, sem leit á það sem stórt og mikilvægt tækifæri til að mingla og láta sjá sig.

Í samráði við Hermann var hún ekki viðstödd í vikulegri pizzaveislu fjölskyldunnar heldur fór í Hörpu en sá fljótt eftir því. „Þetta var ógeðslega leiðinlegt. Ég stóð þarna í Hörpu og var búin að vera að tala við einhverja karla í svona chatti og var bara: Af hverju er ég ekki heima að baka pizzu með krökkunum?“ Hún ákvað að svona hittingar hentuðu sér ekki. Hún segir að konur séu duglegar, en bætir við „Við erum bara ekkert rosalega mikið að auglýsa hvað við erum duglegar, að markaðssetja okkur.“

Grætur með starfsfólkinu

Hún sem kvenkyns stjórnandi kveðst hafa aðrar áherslur en ýmsir karlkyns kollegar hennar. Hún veit til dæmis flest um persónulega hagi síns starfsfólks og er áhugasöm. „Áhugasvið karla er ekki endilega að vita hvað þú átt mikið af börnum eða hvað konan þín gerir eða slíkt. Það er ekkert endilega verra, en ég er þannig að ég hef brjálæðislegan áhuga á fólki og ég vil vita allt um fólkið sem ég vinn með, og man það yfirleitt,“ segir hún. „En svo getur komið að ársreikningunum sem fjármálastjórinn getur þulið upp, en ég man ekki neitt sko.“

Það kemur fyrir að samstarfsfólkið grætur og það er alltaf velkomið hjá Júlíu. „Ég græt með þeim. Ég er grátgjörn og þykir rosalega vænt um fólkið sem ég vinn með,“ segir Júlía. „Ég hef verið með starfsfólk grátandi inni hjá mér, þá tárast ég með því. Við höfum misst fólk í veikindafrí út af álagi í vinnu og heima fyrir og þetta tekur á. Þetta er erfitt,“ segir Júlía. Hún leggur sig mikið fram við að tryggja að starfsfólkinu líði vel og segist vera tilbúin að gera allt til þess að tryggja velferð þess. „En ég er líka kröfuhörð, vil árangur og allt það,“ segir Júlía.

„Held að við munum öll á endanum fá veiruna“

Að lokum segir Júlía líklegast að ástandið sem nú varir muni verða veruleiki okkar sem þjóð í nokkurn tíma. „Bóluefnin veita góða vörn og koma í veg fyrir að við veikjumst alvarlega í flestum tilfellum, þannig að við ættum að geta andað rólega. En við getum ekki sleppt veirunni lausri eins og gjörgæslan er búin að vera,“ segir hún.

Því sé hyggilegast að búa við einhverjar takmarkanir en þó bólusetningar veiti vörn sé COVID-19 besta vörnin. „Nú er maður að hugsa að það sé kannski ágætt fyrir mig sem hraust manneskja með enga undirliggjandi sjúkdóma að fá þessa veiru. Ég held að við munum öll á endanum fá veiruna en ef við erum vel bólusett þá munum við ekki finna mikið fyrir henni og hún mun ekki hafa langvarandi áhrif á okkur.“

Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Júlíu Rós Atladóttur í Sunnudagssögum á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Innlent

Mikið af Janssen-bóluefni kemur til landsins á morgun

Innlent

Rúmlega 170 þúsund skammtar í maí og júní