Yfir 900 smit í Ástralíu

epa09425608 Workers conduct a deep clean at Carlton Public School in Sydney, New South Wales, Australia, 23 August 2021. New South Wales has extended the current lockdown in Greater Sydney until the end of September.  EPA-EFE/JOEL CARRETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Enn fjölgar nýsmitum í þeirri bylgju kórónaveirufaraldursins sem nú hrellir Ástrali, og þá einkum íbúa Sydneyborgar og Nýja Suður-Wales. 902 greindust með COVID-19 í Ástralíu síðasta sólarhringinn, þar af 832 í Nýja Suður-Wales, samkvæmt tölum heilbrigðisyfirvalda. Er þetta þriðji dagurinn í röð sem yfir 800 smit greinast í Nýja Suður-Wales, þar sem smit hafa nú verið yfir 600 í eina viku.

Öll eru smitin af delta-afbrigði veirunnar, sem breiðist hratt út um lönd og álfur um þessar mundir, þar á meðal hér á landi. Útgöngubann og strangar takmarkanir af ýmsu tagi gilda í Nýja Suður-Wales, Viktoríuríki og Queensland vegna útbreiðslu COVID-19. Þúsundir mótmæltu sóttvarnaaðgerðunum í Melbourne og Brisbane um helgina þrátt fyrir strangt samkomubann og fjöldatakmarkanir og í fyrrnefndu borginni kom til átaka milli lögreglu og mótmælenda.

Kirkjugestir sektaðir fyrir brot á sóttvarnareglum

Í Sydney sektaði lögregla tugi kirkjugesta sem mættu til messu í einu af þeim hverfum borgarinnar, þar sem takmarkanir eru allra strangastar vegna mikillar útbreiðslu veirunnar. Voru messugestir um 60 talsins, þar um helmingur fullorðinn. Hver fullorðinn messugestur fær sekt upp á 1.000 Ástralíudali, jafnvirði ríflega 90.000 íslenskra króna, en kirkjan var sektuð um 5.000 Ástralíudali. Innan við fjórðungur Ástrala er fullbólusettur. 

Fréttin var leiðrétt kl. 05.30 eftir að ábending barst um að smit í Nýja Suður-Wales væru nokkru færri en greint var frá í upprunalegri útgáfu hennar.