„Ég vona að sem flestir komi til að andmæla okkur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég vona að sem flestir komi til að andmæla okkur“

19.08.2021 - 14:29

Höfundar

„Við erum ekki víkingar heldur ofurlúðar eins og systir mín kallar okkur,“ segir Reynir A. Óskarsson. Hann hefur árum saman rannsakað líf og bardagaaðferðir víkinga ásamt William R. Short og kveðst muni kynna óvæntar og mögulega umdeildar niðurstöður á laugardag.

Reynir A. Óskarsson kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 í gær vopnaður exi. Hann er í óða önn að búa sig undir viðburð sem haldinn verður í Þjóðminjasafninu á laugardag þar sem hann og William R. Short munu fræða gesti um rannsóknir þeirra á bardagaaðferðum víkinga. Niðurstöður rannsóknarinnar eru að sögn Reynis að miklu leyti fremur óvæntar. Þeir skrifuðu bók um þær og eru á leið um landið að halda kynningar. „Þetta er bara ný sýn á þennan heim, bæði út frá bardaganum, en líka þessu heildræna samfélagi. Ég held við séum nokkurn veginn þeir fyrstu sem höfum búið til þessa heildstæðu mynd.“

Þurftu að sérhanna tól sem þau gátu lamið hvert annað með

Að endurgera vopnin er hluti af rannsókninni en þau eru ekki ætluð til brúks. „Við erum ekki endurleikendur og ekki víkingar heldur ofurlúðar eins og systir mín kallar okkur. Víkingapervertar sem ég myndi frekar kalla vísindamenn,“ segir Reynir sposkur. „Við þurfum að sérhanna tól sem við gátum lamið hvort annað með. Þetta eru flókin fræði, 20 ára rannsókn, og endar í þessari mynd sem þú sérð en þú sérð ekki bakgrunninn þar sem fólk er blóðugt og bólgið.“

Af hverju vill mamma Egils að hann sé víkingur?

Þeir hafa í rannsóknum sínum lagt upp með að skilja þetta samfélag og finna svör við óvæntum spurningum. „Af hverju í Egils Sögu í Það mælti mín móðir, hvers vegna vill mamma hans að hann sé víkingur? Hvað er að gerast þarna og hvernig er þetta heildræna samfélag? Hugleiðingar og kenningar okkar, og ég vona að flestir komi til að andmæla, er að þú getur ekki skilið þessa víkinga ef þú skilur ekki þessa ofbeldismenningu,“ segir Reynir. „Hugleiðingar okkar eru að ef við tökum fötin, vopnin og víkingana í burtu, hvernig myndum við vita hvernig þeir börðust? Það er út frá þeirri heimspeki sem við rannsökum þetta.“

Ekki andmæla þegar kemur að einhverju troðfullu af karlkynshormónum

En hvernig kviknaði áhugi Reynis á þessu? „Ég var skemmdur,“ segir hann kíminn. Reynir vísar í kynni hans og Williams þegar hann fór á fyrirlestur þess síðarnefnda um víkinga og bardagaaðferðir þeirra. Reynir var ekki sammála öllu sem kom fram og hann sendi honum póst. „Ég sagði: Getur verið að þú hafir rangt fyrir þér? Það er eitthvað sem þú átt alls ekki að gera þegar það kemur að einhverju troðfullu af karlkynshormónum, víkingur og bardagi.“

Skemmdist eitthvað í hausnum á honum þegar hann heyrði um víkinga

En William brást ekki ókvæða við. „Hann svaraði: Það gæti vel verið, endilega hittu mig,“ rifjar Reynir upp. Sjálfur er William doktor í vísindum frá MIT og starfaði sem uppfinningamaður og var meðal annars verðlaunaður sem vísindamaður ársins í Bandaríkjunum. „Svo skemmdist eitthvað í hausnum á honum þegar hann heyrði um víkinga.“

Við bara prófuðum

Saman ákváðu þeir að þróa tilraunir sem þeir svo framkvæmdu. „Við höfum gert ansi mikið af þeim og þær eru rosalega súrar,“ segir Reynir. Eitt af því sem þeir prófuðu var að gera bogastreng úr hári. „Fræðimenn höfðu rætt í hundrað ár hvort þetta væri bara sagnfræði eða eitthvað til framþróunar í sögunni. Við höfðum enga skoðun, við bara prófuðum það og athuguðum hvort það virkaði.“

En ætli það hafi virkað? „Þið verðið að koma á fyrirlesturinn til að komast að því,“ segir Reynir leyndardómsfullur. Sem fyrr segir fer viðburðurinn fram á Þjóðminjasafninu og Reynir hvetur fólk til að mæta og andmæla. „Ef þið ætlið að andmæla en getið orðað það sem hrós þá er það best,“ segir Reynir að lokum.

Rætt var við Reyni A. Óskarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.