
Saka Hvítrússa um kúgunartilburði vegna flóttafólks
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands segir Alexander Lúkasjenka forseta Hvíta Rússlands ekki geta neytt Pólverja til að taka á móti fólkinu.
Evrópusambandið sakar hvítrússnesk stjórnvöld um að þrýsta á flóttafólkið að leita skjóls í Litáen, Lettlandi og Póllandi með því að synja því um hæli. Stjórn Lúkasjenka geri það í hefndarskyni fyrir refsiaðgerðir sambandsins gegn ríkinu og helstu ráðamönnum þess.
Löndin þrjú eru næstu nágrannar Hvíta-Rússlands og þúsundir flóttafólks hafa reynt að leita þar hælis undanfarna mánuði.
Fólkið hefur verið á landamærum Hvíta-Rússlands og Póllands um nokkurra daga skeið og pólsk yfirvöld hafi útvegað því mat. Flóttafólkið er einkum frá Miðausturlöndum en eftir að Litáen tók að vísa þeim á brott í ágústbyrjun jókst þunginn á Lettland og Pólland.
Ekkert landanna leyfir flóttafólkinu að sækja um hæli og hvítrússneskir landamæraverðir hleypa því ekki aftur inn í landið. Pólsk stjórnvöld eru staðráðin í að gefa ekki eftir og benda á að fólkið sé Hvíta-Rússlandsmegin landamæranna.
Pólski herinn var kallaður til aðstoðar landamæravörðum en innanríkisráðuneyti landsins hyggst herða löggjöf þannig að auðveldari verði að vísa flóttafólki frá. Sömuleiðis á löggjöfin að gera áfrýjun brottvísana erfiðari.