Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjöldi ríkja lýsir áhyggjum af örlögum afganskra kvenna

epa09418953 Members of All India Students Association (AISA) take part in a street protest campaign in solidarity with the Afghan people and against the Taliban in Afganistan, in Kolkata, Eastern India, 18 August 2021.  EPA-EFE/PIYAL ADHIKARY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandið, Bandaríkin og 18 önnur ríki lýsa í sameiningu miklum áhyggjum af örlögum afganskra stúlkna og kvenna. Ríkin hvetja stjórn Talibana til að tryggja öryggi kvenna.

Í yfirlýsingunni segir að áhyggjur ríkjanna beinist að möguleikum kvenna til menntunar, atvinnu og frelsis til daglegra athafna.

Því sé brýnt fyrir þeim sem ráða ríkjum í Afganistan að tryggja vernd þeirra og öryggi. Meðal þeirra sem taka þátt í yfirlýsingunni eru Noregur, Ástralía, Kanada, Nýja Sjáland, Sviss og Brasilía.

Allir Afganir eiga að búa við öryggi, tryggar aðstæður og njóta virðingar, segir í yfirlýsingunni. Einnig að koma eigi í veg fyrir alla mismunun og misnotkun fólks.

Alþjóðasamfélagið sé reiðubúið að aðstoða afganskar konur og stúlkur við að koma öllum sjónarmiðum sínum á framfæri. Náið verði fylgst með hvernig viðtakandi ríkisstjórn í landinu tryggi það frelsi og réttindi sem undanfarin tuttugu ár hafa verið hluti hversdagslífs þeirra. 

Talibanar hafa lýst því yfir að konum verði tryggður réttur til náms og vinnu en það verði byggt á kennisetningum trúarinnar. Öllum sem hafa unnið fyrir erlend ríki verði veitt sakaruppgjöf og grið. 

Fyrri valdatíð Talibana á árunum 1996 til 2002 einkenndist af harkalegri bókstafstúlkun á trúarkenningum Islam þar sem konum var bannað að læra, vinna eða ferðast um án verndar karlmanna.