Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Konum verður leyft að starfa innan ramma laganna

epa09418131 Zabihullah Mujahid, Taliban spokesman talks with journalists during a press conference in Kabul, Afghanistan, 17 August 2021. The new Taliban leadership that swept to power in Afghanistan has said it would not seek revenge against those who had fought against it and would protect the rights of Afghan women within the rules of Sharia law. Mujahid added the Taliban would work to avoid any return to conflict or for Afghanistan to become a hub for terrorism that would threaten other countries in the region.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talibanar segjast munu tryggja konum réttindi til náms og vinnu byggt á Sjaría-lögum, öllum sem hafa unnið fyrir erlend ríki verður veitt sakaruppgjöf og fjölmiðlar fá að starfa áfram. Allt eftir reglum Talibana. Þetta var meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi þeirra í Kabúl í dag.

Zabihullah Mujahid, talsmaður Talibana gaf loðin svör við spurningum um framtíð kvenréttinda í Afganistan. Hann sagði að konum verði heimilað að starfa innan ramma íslamskra laga án þess að tilgreina nákvæmlega hvað það merkti.

Sjaría-lög eru lagakerfi Islam. Þau byggja á textum úr Kóraninum og svokölluðum Fatwa, kennisetningum íslamskra fræðimanna.

Lögin geta verið ólílk milli landsvæða en inniheldur þær reglur sem múslímum ber að fylgja. Þar á meðal hvenær og hvernig skuli biðjast fyrir, um föstutíma og um framlög til fátækra.

Einnig innihalda þau reglur sifjaréttar, fjármála og viðskipta. Jafnframt er að finna þar harðneskjuleg refsiréttarákvæði. Refsa má fyrir þjófnað með handarhöggi og taka má fólk af lífi fyrir hjúskaparbrot. 

Ríkisstjórn í burðarliðnum

Einnig sagði Mujahid að myndun ríkisstjórnar væri í burðarliðnum og þegar að því kæmi yrði greint frá þeirri lagasetningu sem í landinu mun gilda. Ekki liggur fyrir hverjir verði í stjórninni en Mujahid sagði alla koma að myndun hennar. Hann útskýrði ekki frekar hverjir það væru. 

Hann kvaðst geta fullvissað alþjóðasamfélagið um að Afganistan verði ekki notað sem stökkpallur fyrir árásir á önnur ríki, aðspurður um hvort hætta væri á að hryðjuverkasamtökin Al Kaída hreiðruðu um sig í landinu.

Mujahid sagði einnig að fyllsta öryggi ríkti um allt land en tíðindi hafa borist af mannránum á þeim svæðum sem Talibanar ráða. Hann biðlaði einnig til landsmanna að flýja ekki, öllum væru veitt full grið og sakaruppgjöf. 

Tóku Kabúl til að forðast upplausn í borginni

Mujahid sagði Talibana hafa viljað forðast upplausn í Kabúl. Hann segir ætlunina hafa verið að nema staðar við borgarhliðin og koma valdaskiptum mjúklega á, eins og hann orðaði það.

Öryggissveitir fráfarandi ríkisstjórnar hafi ekki getað tryggt öryggi í borginni og því hafi Talibanar þurft að fara þangað inn. Afganir hafi fullan rétt til að setja eigin lög og reglur í samræmi við eigin gildi. 

Talibanar nútímans ólíkir þeim sem réðu ríkjum forðum

Harðneskja stjórnar Talibana á árunum 1996 til 2001 er alræmd en Mujahid sagði mikinn mun á Talibönum nútímans og fortíðarinnar.

Afganistan sé múslímaríki nú sem þá en reynsla, þroski og framtíðarsýn Talibana sé allt önnur en var. Því verði framganga þeirra önnur að sögn Mujahids sem lét hjá líða að útskýra það betur.

Mujahid sagði jafnframt að frjálsir fjölmiðlar fái að starfa áfram í landinu, innan regluverks Islam. Hann varaði fjölmiðla jafnframt við að vinna gegn Talibönum.

Talibanar hafi frelsað þjóðina eftir tuttugu ára baráttu og hrakið útlendinga á brott en að þeir vildu ekki troða illsakir við nokkurn, hvorki innanlands né utan.