Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Afganistan verði aldrei aftur skjól hryðjuverkamanna

epa08890029 UN Secretary-General Antonio Guterres and German Foreign Minister Heiko Maas (not pictured) give a press conference after a meeting in Berlin, Germany, 17 December 2020.  EPA-EFE/Michael Sohn / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna biðlar til heimsbyggðarinnar að tryggja að Afganistan verði ekki griðastaður hryðjuverkamanna. Bandaríkjaforseti flytur í kvöld ávarp vegna stöðunnar í landinu.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir alþjóðasamfélagið verða að sammælast um að Afganistan verði aldrei griðastaður hryðjuverkasamtaka.

Þetta kom fram í máli hans á neyðarfundi öryggisráðsins í dag. Jafnframt þurfi að tryggja grundvallarmannréttindi í landinu. Guterres biðlaði sérstaklega til Talibana að tryggja réttindi kvenna og stúlkna.

Þúsundir Afgana hafa reynt að flýja yfirvofandi harðræði Talibana og mörgum hefur tekist það. Augljóst er að fólk óttast um líf sitt og réttindi. 

Sendiherra Rússa í Afganistan hyggst funda með leiðtogum Talibana í dag en hann segir þá hafa heitið íbúum landsins algeru öryggi. Í yfirlýsingu frá stjórninni í Kreml segir að Talibanar séu teknir til við að koma á allsherjarreglu í Kabúl.

Rússneska stjórnin virðist vilja koma á tengslum við ný stjórnvöld í Afganistan en Rússar hafa, ólíkt öðrum ríkjum, ákveðið að halda sendiráði sínu opnu.

Stjórn Talibana er meinað um aðgang að sjóðum afganska ríkisins í Seðlabanka Bandaríkjanna. Ekki er vitað hve það eru háar fjárhæðir. Joe Biden Bandaríkjaforseti ætlar að flytja sjónvarpsávarp um málefni Afganistan laust fyrir klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma.