
BBC sakar Rússa um beina árás á frelsi fjölmiðla
Fréttamaðurinn Sarah Rainsford hefur mánuð til að yfirgefa Rússland. AFP-fréttaveitan greinir frá því að Tim Davie, aðalframkvæmdastjóri BBC fordæmi ákvörðunina harðlega og segi hana marka tímamót í samskiptum við Rússa.
Rainsford sé fyrirfyrmyndarfréttamaður sem hafi með óháðum og nákvæmum hætti fjallað um málefni Rússlands og Sovétríkjanna forðum.
Mikil spenna ríkir í samskiptum Rússland og vestrænna ríkja, en stjórnvöld í Moskvu hafa farið mikinn gegn frjálsri fjölmiðlun í landinu. Rússneski fréttamiðilinn Rossiya 24 segir viðbrögðin gagnvart Rainsford í anda framkomu breskra stjórnvalda í garð rússneskra fjölmiðla þar í landi.
Bresk stjórnvöld sektuðu rússneska miðilinn RN um 200 þúsund sterlingspund vegna alvarlegrar slagsíðu í umfjöllun um tilræðið við Skripal-feðginin í Salisbury á Englandi árið 2018.
Sjaldgæft er að rússnesk yfirvöld reki vestræna blaðamenn úr landi, þrátt fyrir mikla gagnrýni á störf þeirra.
Rússneska utanríkisráðuneytið hefur ekki svarað umleitan AFP um viðbrögð en í síðustu viku var breskum ríkisborgurum meinað um að koma til landsins. Þeir voru sakaðir um stuðning og fylgispekt við andrússneskan undirróður. Ekki fylgdi sögunni hvort fréttamaðurinn Sarah Rainsford er á þeim lista.