Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árásarmanninum lýst sem einfara sem amaðist við konum

13.08.2021 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: BBC - Facebook
Enn er ekki vitað hvað olli því að maður á þrítugsaldri myrti fimm, særði tvo og svipti sig loks lífi borginni Plymouth á Suður-Englandi í gær. Honum er lýst sem einfara sem amast við konum.

Rannsókn stendur nú yfir á hvað varð til þess að Jake Davison rúmlega tvítugur maður varð fimm að bana í borginni Plymouth á Suður-Englandi í gær áður en hann svipti sjálfan sig lífi. Þriggja ára barn er meðal hinna látnu. 

Lögregla hefur staðfest að tengsl séu milli árásarmannsins og fyrsta fórnarlambs hans, rúmlega fimmtugrar konu, sem Davison myrti á heimili hennar í kyrrlátu úthverfi. 

Lögregla vill ekki staðfesta orðróm þess efnis að konan sé móðir hans. Þó bendi margt til að heimilisdeilum hafi lyktað með morði og að atlagan hafi flust út á nærliggjandi götur. 

Davison hafði gilt byssuleyfi og beitti einu skotvopni við atlöguna. Ekki hefur verið staðfest hvort leyfið náði yfir það vopn sem hann notaði við árásina.

Lögregla í Devon og Cornwall  hefur ekki staðfest hverskonar byssa það var en vitni fullyrða að þau hafi séð Davison með haglabyssu í höndunum. 

Almenningi í Bretlandi er bannað að eiga og bera skammbyssur en rifflar og haglabyssur eru leyfð með ströngum skilyrðum. Ekkert hefur komið fram sem varpað getur ljósi á hvaða hvatir lágu að baki morðanna.

Öll þau sem féllu fyrir hendi Davisons voru útivið í næsta nágrenni við heimili fyrsta fórnarlambsins. Auk hinna látnu særðust tveir illa enn ekki lífshættulega.

Þóttist vera Bandaríkjamaður

Lögregla segir að það sem liggur eftir Davison á samfélagsmiðlum bendi til að hann hafi ekki skort tengsl við fjölskyldu sína, verið fullur sjálfsvorkunnar og andúðar í garð kvenna.

Samkvæmt upplýsingum á Facebook síðu hans þóttist hann vera ættaður frá borginni Phoenix í Arizona-ríki Bandaríkjanna.

Hann hafi jafnframt verið upptekinn af byssum og tölvuleikjum þar byssur koma við sögu. Sömuleiðis bendi orðfæri hans til fylgispektar við öfgafullar hægri stjórnmálastefnur. 

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands þakkaði fyrir fumlaus viðbrögð lögreglu og annarra viðbragðsaðila og sendi samúðarkveðjur til allra sem eiga um sárt að binda eftir atburðinn.

Tíu ár eru liðin frá að viðlíka atburður varð á Bretlandseyjum. Þá skaut leigubílsstjóri að nafni Derrick Bird tólf manns til bana í Kumbaralandi í Norð-Vestur Englandi.

Árið 1996 létust sextán barnungir skólanemendur og kennari þeirra í skotárás í grunnskóla í Dunblane í Skotlandi. Það er versta skotárás í sögu Bretlands en í kjölfarið var vopnalöggjöf hert til mikilla muna.