Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árásarmaðurinn í Plymouth nafngreindur

13.08.2021 - 09:43
Mynd með færslu
 Mynd: BBC - Facebook
Lögreglan í Plymouth á Englandi hefur nafngreint árásarmanninn sem skaut fimm manns til bana í gær áður en hann svipti sig lífi.

Þetta kemur fram á vef BBC í dag. Maðurinn hét Jake Davison og var 23 ára gamall. Ekki er vitað hvað manninum gekk til en árásin er ekki skoðuð sem hryðjuverk, að sögn lögreglunnar í Plymouth.

Á meðal fórnarlambanna fimm var barn, tæplega tíu ára gamalt. Um er að ræða mannskæðustu skotárás í Bretlandi frá árinu 2010. Þá skaut leigubílsstjóri að nafni Derrick Bird tólf manns til bana í Kumbaralandi í Norð-Vestur Englandi.

Allmörg vitni urðu að voðaverkunum og biðlaði Alison Hernandez, lögreglustjóri í Devon og Cornwall, til almennings að deila ekki myndskeiðum af skotárásinni.