
Vara við að skógareldar blossi upp á Spáni og Portúgal
Spáð er allt að fjörtutíu stiga hita á stærstum hluta Íberíuskaga næstu daga og jafnvel uppundir 45 á sunnanverðum Spáni.
Hitabylgja umhverfis Miðjarðarhaf sköpuð af heitum loftmassa sunnan úr Norður-Afríku hefur meðal annars leitt af sér gríðarmikla gróður- og skógarelda sem hafa kostað tugi mannslífa á Ítalíu, í Tyrklandi og Alsír.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar varaði landa sína við og sagði Spánverja ekki undanþegna hættuástandinu. Hann hvatti til varkárni og biðlaði til fólks að vinna með stjórnvöldum við að draga úr hættunni á að eldar blossuðu upp.
Varað er við hættuástandi í fjórtán af sautján sjálfsstjórnarhéruðum landsins og útivist er bönnuð í skógum Katalóníu. Víða er notkun landbúnaðartækja bönnuð yfir hádaginn.
Veðurstofa Portúgals lýsti í dag yfir hæsta stigi varúðar í mið- og norðurhluta landsins auk hluta Algarve í suðurhlutanum. Antonio Costa forsætisráðherra landsins segist ekki vilja að atburðir ársins 2017 endurtaki sig þegar tugir fórust í skógareldum.
AFP-fréttaveitan greinir frá því að hitabylgjur skullu tvisvar sinnum oftar á Spáni á síðasta áratug en næstu þrjá áratugi á undan.
Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem birt var á mánudag kemur fram að miklar öfgar í veðurfari færist í aukana sem leiði af sér hitabylgjur og mikla skógarelda.