Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vill efla virðingu fyrir blaðamannsstarfinu

Valgerður Anna Jóhannsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Engir nýnemar verða teknir inn í meistaranám Háskóla Íslands í blaða- og fréttamennsku í haust. Umsjónarmaður námsins segir mikilvægt að laga námið að breyttum veruleika blaða- og fréttamanna og hefja fagið til vegs og virðingar.

 

Vill laga námið að breyttum veruleika

„Aðsóknin hefur minnkað og það eru að mörgu leyti mjög erfiðar aðstæður í þessu fjölmiðlaumhverfi,“ segir Valgerður Anna Jóhannsdóttir, umsjónarmaður námsins og lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla íslands. Einkareknir miðlar berjist í bökkum og talsvert um samruna og uppsagnir. Hún segir blaða- og fréttamennsku hafa tekið hröðum breytingum undanfarna tvo áratugi og hyggst leggjast yfir það, í samráði við miðlana sjálfa og samtök blaða- og fréttamanna, hvernig námið geti best nýst í dag. Með breytingum á hún bæði við tækninýjungar en einnig meiri hraða, álag og auknar kröfur um framleiðni.

Umræðan um starfið oft neikvæð

Í huga Valgerðar er nú meiri þörf en nokkru sinni fyrir gagnrýna blaða- og fréttamenn en umræðan um starfið oft neikvæð, talað um að hver sem er geti gegnt því og fólk í stéttinni margt orðið beygt og bugað. „Hver sem er getur sest fyrir framan tölvu, skrifað eitthvað og dreift. Það er nóg af fólki sem hefur skoðanir á öllum mögulegum eða ómögulegum hlutum en það sem við þurfum eru vandaðar, sannreyndar upplýsingar. Það þarf kannski að gera eitthvert átak í að vekja athygli á því hversu mikilvæg þessi starfsemi er fyrir samfélagið allt og hefja þetta starf til meiri vegs og virðingar en það að mörgu leyti nýtur í dag.“

Blaða- og fréttamennska sé ákveðið starf og blaðamenn temji sér ákveðin vinnubrögð. „Þetta felur í sér að vera gagnrýninn, kunna að sannreyna heimildir, taka viðtöl á faglegan hátt og afla upplýsinga sem er ekki endilega verið að ota að fólki, heldur þarf að hafa svolítið fyrir.“

Stefnt er að því að taka nýnema inn í endurskoðað nám í blaða- og fréttamennsku, haustið 2022.