Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þjóðarsorg í Alsír þar sem 65 eru látin í skógareldum

11.08.2021 - 15:47
epa09407656 Local youths and volunteers gather in an open field and wait to support during a wildfire near the village of Kamatriades  in the island of  Evia, Greece, 09 August 2021.  Fires that broke out in Attica and Evia island this week have burned more than a quarter of a million stremmas, the National Observatory of Athens' center Beyond said on August 08. Some 76,150 stremmas (7,615 hectares) have been burnt so far in northern Attica. At Evia island the surface area of burnt land is measured at 197,940 stremmas (19,794 hectares). These figures concern only the fires in Attica and Evia, but dozens of large fires have affected several areas across the country.  EPA-EFE/KOSTAS TSIRONIS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Forseti Alsír lýsir yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu til að minnast þeirra sextíu og fimm sem látið hafa lífið í gríðarlegum skógareldum. Stjórnvöld grunar sterklega að eldarnir hafi kviknað af mannavöldum.

Þriggja daga þjóðarsorg í Alsír hefst á morgun í kjölfar yfirlýsingar Abdelmadjid Tebboune forseta landsins.

Meðal þeirra látnu eru 28 hermenn sem liðsinntu slökkviliði og björgunarsveitum í baráttu við yfir fimmtíu elda sem kviknuðu á þriðjudaginn var. Flestir eldarnir loga í héraðinu Tizi Ouzou austan höfuðstaðarins Algeirsborgar. Þar hefur eldhafið orðið sextán að bana. 

Í frásögnum fréttamanna AFP-fréttaveitunnar af atburðunum er lýst tilraunum almennings við að bjarga heimilum sínum undan logunum með því að berja á þeim með kústum og öðrum tólum. 

Sterkir vindar hafa magnað eldana en gróður er skraufaþurr eftir mikla hitabylgju sem gengið hefur yfir Alsír og fleiri lönd við Miðjarðarhafið. Miklir eldar hafa logað í Grikklandi, Tyrklandi og á Ítalíu svo dæmi séu tekin.

Gríðarleg hitabylgja veldur óvenju miklum þurrkum

Veðurfræðingar búast við að hitabylgjan vari út vikuna en í nágrannaríkinu Túnis mældist 49 stiga hiti í gær. Þar í landi glímir slökkvilið við á annan tug skógarelda en ekki hefur verið tilkynnt um dauðsföll af völdum þeirra. 

Allnokkrir hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa kveikt eldana í Alsír en lögregla hefur hvorki látið nokkuð uppi um hverjir þeir séu né mögulegar ástæður þess að þeir kveiktu í. 

Frakkar hafa boðið Alsíringum aðstoð sína og kallað hefur verið eftir mataraðstoð innanlands fyrir fólk sem býr á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti í eldunum. 

Ekki er óalgengt að skógareldar logi í Alsír á sumrin en sjaldan eru þeir nokkuð í líkingu við þá sem nú geisa í landinu.

Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem birt var á mánudag kemur fram að miklar öfgar í veðurfari færist í aukana sem leiði af sér hitabylgjur og mikla skógarelda. 

Þjóðarsorg er það tímabil nefnt þegar þjóðir syrgja í sameiningu, til dæmis eftir andlát þjóðhöfðingja eða mikinn harmleik, á borð við stórslys eða náttúruhamfarir. Víða er flaggað í hálfa stöng á meðan þjóðarsorg stendur.