
Mannfall í átökum stríðandi fylkinga í Úkraínu
Í tilkynningu sem úkraínski herinn sendi frá sér í morgun segir að þungvopnaðar sveitir aðskilnaðarsinna gerðu sextán árásir undanfarinn sólarhring þar sem sprengjuvörpum, vélbyssum og handsprengjum var beitt.
Þrír hermenn særðust í árásunum en einn þeirra lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Roskinn maður varð á milli í skothríð stríðandi fylkinga og lést í þorpinu Novoselivka Druga í Donetsk.
Allt frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hafa aðskilnaðarsinnar farið mikinn í héruðunum Donetsk og Lugansk. Yfir 13 þúsund eru fallin í valinn í átökunum.
Vopnahléi var komið á síðari hluta síðasta árs sem stríðandi öfl virtu að mestu en spenna tók að vaxa að nýju á vordögum. Eftir talsverð átök sendu rússnesk stjórnvöld herlið að landamærum Úkraínu í apríl sem var að mestu dregið til baka nokkrum vikum síðar.
Angela Merkel, Þýskalandskanslari sem hefur farið fyrir friðarviðræðum aðskilnaðarsinna og úkraínskra stjórnvalda er væntanleg til Kíev 22. ágúst næstkomandi til að stjórna viðræðum um öryggismál og tvíhliða samskipti andstæðra fylkinga í landinu.