Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Loforðin sem stjórninni tókst ekki að standa við

Mynd með færslu
 Mynd: úr sáttmála
Hálendisþjóðgarður, innleiðing keðjuábyrgðar og ráðstafanir til afnáms verðtryggingar á lánum eru meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin lofaði í stjórnarsáttmála sínum haustið 2017 en lauk ekki við. Stjórnin segist hafa lokið þremur fjórða hluta aðgerða sem getið var í stjórnarsáttmála hennar. Mat á stöðu aðgerðanna byggir á huglægu mati.

Tóku á sig rögg

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru skilgreindar 189 aðgerðir. Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í gær kom fram að 138 þessara aðgerða sé nú að fullu lokið, það er tæplega þremur af hverjum fjórum. Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi látið hendur standa fram úr ermum á þessu ári, en í febrúar var einungis rúmum helmingi aðgerðanna lokið. 

Huglægt mat á stöðu aðgerða

Á vef stjórnarráðsins segir að þær aðgerðir sem ekki séu að fullu orðnar að veruleika séu flestar vel á veg komnar, þrátt fyrir heimsfaraldur og tíðar náttúruhamfarir. Þar segir líka að mat á stöðu aðgerða byggi á huglægum þáttum. Verkefni teljist komið vel á veg þegar það hefur verið mótað að mestu leyti og niðurstaða þess í augsýn.

Misvel skilgreindar

Aðgerðirnar sjálfar eru misvel skilgreindar og ekki alltaf auðvelt að ráða af heiti þeirra hvað þurfi að uppfylla til að ljúka þeim. Þannig tókst stjórnvöldum að eigin mati að leggja áherslu á forvarnir og lýðheilsu og leggja áherslu á málefni hafsins á vettvangi Norðurskautsráðsins. Aðrar aðgerðir sem tókst að ljúka eru betur skilgreindar svo sem að endurskoða lög um veiðigjöld eða tryggja að fjármögnun háskóla nái meðaltali OECD-ríkja. 

Hálendisþjóðgarður sagður vel á veg kominn

Meðal þeirra aðgerða sem stjórninni tókst ekki að ljúka var hálendisþjóðgarður, frumvarp um hann var umdeilt og var ekki afgreitt á þingi en þó er aðgerðin sögð vel á veg komin. Ekki tókst heldur að gera ráðstafanir til afnáms verðtryggingar á lánum, vinna að uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal, endurskoða stjórnarskrána, styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila  eða taka á móti fleiri flóttamönnum. Þá tókst ekki að klára vinnu við innleiðingu keðjuábyrgðar og gegn félagslegum undirboðum.

Hvað verður um þessi hálfkláruðu verkefni er óljóst, enda gætu áherslur þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við að loknum kosningum reynst aðrar en þeirrar sem nú situr. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin eins og hún var skipuð haustið 2017.