Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Samtök kennara í Hong Kong lögð niður

10.08.2021 - 12:35
epa08464436 Protesters hold cardboards reading 'Free Hong Kong' and 'Fight for freedom' during a demonstration with participation of the Free Democratic Party (FDP) in front of the Chinese embassy in Berlin, Germany, 04 June 2020. In the early hours of 04 June 1989, Chinese troops cracked down on student protesters at Tiananmen Square in Beijing, China, leaving many students killed or injured. This year commemoration of the 1989 Tiananmen Square massacre is not allowed in Hong Kong  because of coronavirus measures.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fagkennarasambandið, fjölmennasta verkalýðsfélag Hong Kong tilkynnti í dag að það yrði leyst upp. Kínversk stjórnvöld segja kennara hafa verið í fararbroddi mótmæla í landinu fyrir tveimur árum.

Forystufólk Fagkennarasambandsins segir ástæðurnar vera gríðarlegan þrýsting kínverska stjórnvalda en þau hafa skipulega brotið andstöðu lýðræðisafla í Hong Kong á bak aftur.

Sambandið var stofnað árið 1973 og telur um 95 þúsund félagsmenn. Fung Wai-wah, forseti sambandins segir að miðstjórn þess hafi samþykkt einróma að leggja það niður.

Það sé þyngra en tárum taki en félagslegt og pólítískt landslag hafi breyst mjög undanfarin ár. Þrýstingur frá stjórnvöldum sé mikill og ekki nokkur leið að finna lausn á núverandi ástandi.

Í síðasta mánuði snerust kínverskir ríkismiðlar öndverðir gegn Fagkennarasambandinu og sögðu það vera illkynja æxli sem þyrfti að fjarlægja.

Þótt sambandið hafi haldið upp hófsömum málflutningi, jafnvel svo að öðrum andófsöflum fannst það of eftirlátt við stjórnvöld, réðust kínversk stjórnvöld af alefli gegn því.

Rökin voru þau að kennarar hefðu verið í fararbroddi mótmæla ungs fólks fyrir tveimur árum. Jafnframt fullyrti Carrie Lam, æðsti embættismaður Hong Kong, að sambandið dreifði andkínverskum áróðri.

Yfirvöld menntamála í borginni slitu í kjölfarið öll tengsl við sambandið sem væri orðið eins og hver önnur stjórnmálaöfl. Hart hefur verið tekið á öllum tilraunum til andófs í Hong Kong og öryggislög samþykkt í fyrrasumar veita stjórnvöldum auknar heimildir til að beita hörðu.

Yfir þrjátíu félagasamtök hafa verið leyst upp undanfarið ár, öryggislögregla hefur handtekið yfir 120 stjórnarandstæðinga og andófsmenn og um sextíu hafa þegar verið ákærð með vísan til öryggislaganna.