Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Neyðarástand vegna flóttamanna frá Hvíta-Rússlandi

10.08.2021 - 15:07
epa08423464 Lithuanian state border guards check vehicles at the Salociai-Grenctale border checkpoint, Lithuania, 15 May 2020. Lithuania has maintained some restrictions for the citizens of the Baltic states  that wish to cross the border. Lithuania, Estonia and Latvia opened their borders for citizens on 15 May, so that they may travel between the three nations.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA - RÚV
Stjórnvöld í Lettlandi hafa lýst yfir neyðarástandi við landamæri ríkisins að Hvíta-Rússlandi vegna fjölda flóttamanna frá Mið-Austurlöndum sem hafa komið yfir landamærin.

Með neyðarástandinu er lögreglu og landamæravörðum heimilt að beita valdi, ef þörf krefur, til að snúa flóttamönnum við á landamærunum. Þá er þeim ekki skylt að taka við umsóknum um alþjóðlega vernd, þvert á ákvæði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

ESB beitir sér

Ásókn flóttafólks yfir landamæri Hvíta-Rússlands til Evrópusambandsríkjanna  Lettlands, Litháen og Póllands, hefur aukist mjög að undanförnu.

Ríkin þrjú og valdamenn í Brussel saka Alexander Lúkasjenko, forseta Hvíta-Rússlands, um að beina flóttamönnum að landamærum nágrannaríkjanna í hefndarskyni. Forsetinn hefur sjálfur sagt Hvít-Rússa undirbúa „hefndir“ vegna refsiaðgerða Vesturlanda.

Ráðherraráð Evrópusambandsins fundar í næstu viku um stöðuna við landamærin, en fyrr í dag greindi ESB frá því að „umtalsverður samdráttur“ hefði náðst í komu flóttamanna eftir að stjórnvöld í Írak bönnuðu, að beiðni ESB, flug frá Írak til Hvíta-Rússlands.

Síðastliðinn sólarhring hafa um 200 flóttamenn farið yfir landamæri Hvíta-Rússlands til Lettlands. 

Stutt er síðan nágrannalandið Litháen hóf að snúa við flóttamönnum sem koma yfir landamærin. Þá hafa stjórnvöld í Póllandi sagt að 349 flóttamenn hafi komið yfir landamærin frá Hvíta-Rússlandi frá því á föstudag.