Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hvítrússar segjast undirbúa hefndir vegna refsiaðgerða

epa08643495 Belarus President Alexander Lukashenko speaks with Russian Prime Minister Mikhail Mishustin (not seen) during their talks in Minsk, Belarus, 03 September 2020. Russian Prime Minister Mikhail Mishustin is on a visit to Minsk.  EPA-EFE/ALEXANDER ASTAFYEV / GOVERNMENTAL PRESS SERVICE / SPUTNIK POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - Sputnik
Utanríkisráðuneyti Hvíta Rússlands fullyrðir að vestræn ríki ætli sér að steypa Alexander Lúkasjenka forseta af stóli. Gagnrýni þeirra á stöðu mannréttinda í landinu sé aðeins yfirvarp.

Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins segir að vestrænir andstæðingar Hvíta Rússlands varpi fram slagorðum um vernd mannréttinda og lýðræðis. Raunverulegur tilgangur þeirra eigi sér ískaldar pólítiskar rætur.

Það sé einbeittur ásetningur vestrænna ríkja að grafa undan fullveldi Hvíta Rússlands með því að koma af stað valdaskiptum í landinu. Í yfirlýsingunni sagði einnig að nýjar refsiaðgerðir Bandaríkjanna, Bretlands og Kanada verði gaumgæfðar ítarlega og viðeigandi hefndaraðgerðir ákveðnar í kjölfarið. 

Lúkasjenka forseti fordæmdi refsiaðgerðir Breta og Bandaríkjamanna á átta klukkustunda löngum blaðamannafundi í gær. Löglega hafi verið staðið að endurkjöri hans 9. ágúst í fyrra og hann sé óumdeilt réttkjörinn forseti landsins.

Aðgerðir Kanadamanna eru keimlíkar hinum og snúa að efnahagsþvingunum, banni við inn- og útflutningi helstu framleiðsluvara Hvítrússa og útilokun helstu ráðamanna frá alþjóðlegum fjármálaheimi. 

Lúkasjenka hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi í 27 ár en landið varð sjálfstætt ríki við fall Sovétríkjanna árið 1991. Á tímum yfirráða Sovétríkjanna var Lúkasjenka, sem er fæddur 1954, yfirmaður á samyrkjubúi.

Hann var þegar í upphafi forsetatíðar sinnar sakaður um einræðistilburði enda gerði hann ýmsar stjórnarskrárbreytingar til að tryggja völd sín og áhrif.