
Embættismaður rannsakar örlög frumbyggjabarna
Óháðum embættismanni er ætlað að finna og tryggja vernd þúsunda ómerktra grafa við sérstaka heimavistarskóla ætluðum börnum frumbyggja. Krafa um óháða rannsókn varð mjög hávær eftir að fjöldi ómerktra grafa fannst við heimavistarskóla í sumar.
Embættismanninum er einnig ætlað að leggja til laga- og stefnubreytingar vegna liðinna misgjörða gegn frumbyggjum. Honum verður þó ekki falið ákæruvald en David Lametti, dómsmálaráðherra, segir hlutverk hans verða að kortleggja leiðina framundan.
Um 150 þúsund frumbyggjabörn voru send í heimavistarskóla frá lokum nítjándu aldar og fram á tíunda áratug þeirrar tuttugustu.
Sérstök rannsóknarnefnd greindi frá því fyrir nokkrum árum að skólastjórar og kennarar hafi beitt börnin grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, svift menningu sinni og tungu.
Uppgötvun meira en 1.200 ómerktra grafa við skóla í Bresku Kólumbíu og Saskatchewan kveikti mikla reiði meðal almennings í Kanada. Mikil leit stendur nú yfir að enn ófundnum gröfum en óttast er að þær eigi eftir að reynast mun fleiri þegar yfir lýkur.
Grunur leikur á að þúsundir barna hafi látist af völdum sjúkdóma og vanhirðu. Rannsóknarnefndin nefndi örlög frumbyggjabarnanna menningarlegt þjóðarmorð.
Embættismaðurinn mun starfa náið með ættbálkum frumbyggja, kaþólsku kirkjunni sem rak skólana, og fleiri sérfræðingum. Enn er ekki víst hver örlög þeirra bygginga sem hýstu skólana verða.
Líklegast þykir að þær verði jafnaðar við jörðu þar sem þeim fylgja minningar afar þungbærar fyrrverandi nemenda og fjölskyldna þeirra.