Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Að minnsta kosti sjö látin í skógareldum í Alsír

10.08.2021 - 13:45
epa09407655 Flames raise to the sky during a wildfire at the village of Kamatriades  in the island of  Evia, Greece, 09 August 2021.  Fires that broke out in Attica and Evia island this week have burned more than a quarter of a million stremmas, the National Observatory of Athens' center Beyond said on August 08. Some 76,150 stremmas (7,615 hectares) have been burnt so far in northern Attica. At Evia island the surface area of burnt land is measured at 197,940 stremmas (19,794 hectares). These figures concern only the fires in Attica and Evia, but dozens of large fires have affected several areas across the country.  EPA-EFE/KOSTAS TSIRONIS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Gríðarlegir skógareldar hafa orðið að minnsta kosti sjö að bana í Alsír. Miklir hitar hafa verið í landinu og gróður því skraufaþurr. Forseti landsins hefur kallað eftir hertum refsingum fyrir íkveikjur.

Þessar upplýsingar koma frá innanríkisráðuneyti landsins sem bætti því við að ekki væri útilokað að eldarnir hafi blossað upp eftir íkveikju.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að gríðarlegir eldveggir og ólgandi reykjarmökkur umlyki þorp í skógi vöxnum hlíðum Kabylie-svæðisins austan höfuðstaðarins Algeirsborgar. Þar loga eldar í fjórtán héruðum, tíu eldanna nærri Tizi Ouzou stærstu borg svæðisins.

Kamel Beldjoud, innanríkisráðherra segir útilokað að svo margir, allt að fimmtíu eldar hafi kviknað fyrir tilviljun. „Hér hefur glæpur verið framinn,“ segir hann.

Útvarpsstöð í Alsír greinir frá því að þrír séu í haldi grunaðir um íkveikju en í síðasta mánuði kallaði Abdelmadjid Tebboune forseti landsins eftir hertum viðurlögum við því að kveikja skógarelda. 

Veðurfræðingar spá allt að 46 stiga hita í  Alsír í dag en til að bæta gráu ofan á svart glíma Alsíringar við alvarlegan vatnsskort. Gríðarlegir skógareldar hafa valdið miklu tjóni við Miðjarðarhafið í sumar, meðal annars á Grikklandi, Tyrklandi og á Ítalíu.