Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tjón vegna flóða talið um 30 milljarðar evra

09.08.2021 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Uppbyggingarstarf vegna flóðanna sem urðu í Þýskalandi í síðasta mánuði gæti kostað þýska ríkið 30 milljarða evra, eða sem nemur tæpum 4.500 milljörðum króna.

Þetta er mat Armins Laschet, kanslaraefnis Kristilegra demókrata í Þýskalandi og forsætisráðherra í sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu, eins þeirra landa sem urðu hve verst úti í flóðunum. 

Laschet kom fyrir þingnefnd í sambandslandi sínu í dag þar sem hann sagði að þýska ríkið og leiðtogar sambandslandanna sextán væru nálægt því að ná samkomulagi um stuðningsaðgerðir.

Minnst 190 manns fórust í flóðum í vesturhluta Þýskalands um miðjan júlí.

„Öll sambandslöndin hafa sýnt vilja ti að leggja sitt af mörkum til þessa 20 til 30 milljarða evra sjóðs,“ segir Lachet, sem telur að sambandslandið Norðurrín-Vestfalía þurfi um þrettán milljarða evra og nágrannar þeirra í Rínarlandi-Pfalz álíka fjárhæð ef ekki hærri.

Gagnrýndur fyrir að ráðast ekki að rót vandans

Armin Lachet hefur varið síðustu dögum á ferðalagi um þau svæði sem flóðin léku verst. Óhætt er að segja að hann hafi víða fengið óblíðar móttökur en hann hefur meðal annars verið gagnrýndur fyrir að vilja ekki grípa til róttækra aðgerða gegn hlýnun jarðar.

Fyrr í dag gaf milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna út viðamikla ástandsskýrslu um loftslagsbreytingar þar sem sýnt er með afgerandi hætti fram á að athafnir mannsins séu meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi.

Í skýrslunni er sjónum einkum beint að veðuröfgum, hringrás vatns og bráðnum jökla.

Segir þar meðal annars að loftslagsbreytingar geri það að verkum að ýmsir aftakaviðburðir verði algengari og afdrifaríkari, þar með talið ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum.“