Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gróðureldar á Grikklandi „virðast á undanhaldi“

09.08.2021 - 12:25
epa09406425 Firefighter Nektarios Iakovakis battles flames during a wildfire at the village of Pefki in the Evia, Greece, 08 August 2021. Fires that broke out in Attica and Evia island this week have burned more than a quarter of a million stremmas, the National Observatory of Athens' center Beyond said on 08 August. Some 76,150 stremmas (7,615 hectares) have been burnt so far in northern Attica. At Evia island the surface area of burnt land is measured at 197,940 stremmas (19,794 hectares). These figures concern only the fires in Attica and Evia, but dozens of large fires have affected several areas across the country.  EPA-EFE/KOSTAS TSIRONIS
 Mynd: EPA - RÚV
Skæðir gróðureldar sem hafa geisað á Grikklandi í tæpa viku virðast vera á undanhaldi. Þetta sagði Haraldur Ólafsson veðurfræðingur sem staddur er í Aþenu í viðtali við fréttastofu. Yfir 2000 íbúar á Evia-eyju austan við Aþenu hafa þurft að flýja heimili sín og yfir 56 þúsund hektarar lands hafa brunnið. Minnst átta manns hafa látið lífið í eldunum.

Ekki eins og kolaofn í dag

Haraldur segir ástandið í dag töluvert skárra í borginni en undanfarið.

„Hitinn í dag er ekki nema 30 til 35 stig. Það er bara verulega svalt miðað við það sem var fyrir viku síðan þegar hitinn fór upp í 46 gráður. Það var mjög óþægilegt þegar það fór saman við reykinn,“ segir Haraldur. „Þetta var á tímabili það mikið reykjarkóf að maður hélt það væri að kvikna í götunni eða jafnvel í húsinu“.

Engin rigning í kortunum

„Maður sér dálítinn mökk hérna en ekki mikinn. Og það er engin lykt sem að liggur yfir borginni sem hefur nú oft verið,“ segir Haraldur. Hann segir þó enga rigningu í kortunum og því ekki víst eldunum sé að ljúka. „Það hafa komið kaflar þar sem er reykur yfir borginni og þetta er eins og í kolaofni, svo kemur hreint loft inn á milli. Þetta fer eftir vindáttinni og hún er svolítið hverful.“

Hjálp berst frá öðrum þjóðum

„Það loguðu eldar á 50 til 100 stöðum víða á Grikklandi en þeim fer fækkandi,“ segir Haraldur. Hann telur líklegt að það sé slökkviliðsstarfi að þakka að eldarnir séu að hjaðna. Aðstoð við slökkvistarf hefur borist meðal annars frá Serbíu, Ísrael og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.