Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvítrússneskir þjálfarar reknir frá ólympíuþorpinu

06.08.2021 - 03:42
epaselect epa09398396 Defected Belarusian Olympic sprinter Krystsina Tsimanouskaya attends a press conference in Warsaw, Poland, 05 August 2021. Tsimanouskaya and her husband, currently in Ukraine, have been granted Polish humanitarian visas. She is reportedly planning to apply for political asylum in Germany or Austria.  EPA-EFE/RADEK PIETRUSZKA POLAND OUT
Krystina Tsimanouskaja Mynd: EPA-EFE - PAP
Tveir hvítrússneskir þjálfarar hafa verið sviptir ólympíupassa sínum og þurftu því að yfirgefa ólympíuþorpið í Tókíó. Ástæðan er meint tilraun þeirra til að þvinga hvítrússnesku hlaupakonuna Krystinu Tsimanoskaju til að snúa aftur til Hvíta Rússlands áður en hún hafði lokið keppni á Ólympíuleikunum, vegna þess að hún gagnrýndi frammistöðu þeirra opinberlega.

Þjálfararnir óku Tsimanouskaju á alþjóðaflugvöllinn í Tókíó, þvert á vilja hennar. Á flugstöðinni brá hún á það ráð að leita ásjár lögreglu til að komast hjá því að verða send heim, enda taldi hún víst að þar ætti hún refsingu yfir höfði sér.

Alþjóða Ólympíunefndin tilkynnti í kvöld að hún hefði svipt þjálfarana Artur Shimak og Júrí Maisevitsj ólympíupössum sínum vegna þessa og að þeir hefðu þegar yfirgefið ólympíuþorpið. Í tilkynningunni segir að málið sé enn í rannsókn og að þjálfararnir muni fá tækifæri til andmæla, en ákvörðunin um útilokun þeirra frá leikunum hafi verið tekin með hagsmuni keppenda að leiðarljósi.  

Gagnrýni á þjálfara kornið sem fyllti mælinn?

Tsimanouskaja er á meðal rúmlega 2.000 hvítrússneskra íþróttakarla og -kvenna sem undirrituðu opið bréf þar sem kallað er eftir nýjum kosningum í Hvíta Rússlandi og frelsun pólitískra fanga í landinu, sem taldir eru skipta þúsundum. Engu að síður var hún send til Tókíó, þar sem hún átti að keppa í 200 metra hlaupi.

Vandræði hennar hófust fyrir alvöru þegar hún gagnrýndi þjálfara sína á samfélagsmiðli fyrir að skrá hana og stöllu hennar í 4 X 400 metra boðhlaup að þeim fornspurðum, þar sem mistök voru gerð við lyfjapróf tveggja sem áttu að vera í boðhlaupssveitinni.

Fangelsi eða geðdeild

Segist hún hafa verið upplýst um það af fjölskyldu sinni heima í Hvíta Rússlandi að þar biði hennar annað hvort fangelsi eða vistun á geðdeild, og því hafi hún ákveðið að forða sér.

Eftir að Tsimanouskaja leitaði til flugvallarlögreglunnar setti hún sig í samband við pólska sendiráðið í Tókíó, þar sem henni var vel tekið. Hefur henni verið veitt landvistarleyfi í Póllandi og þar er hún nú, ásamt eiginmanni sínum sem flúði til Úkraínu um leið og hann frétti af vandræðum konu sinnar.

Frásagnir ættingja af mögulegri vistun hennar á geðdeild eru ekki úr lausu lofti gripnar, því þegar hvítrússneska ólympíunefndin var krafin skýringa á atburðarásinni í Tókíó sendi hún frá sér yfirlýsingu, þar sem segir að þjálfarar Tsimanouskaju hafi ákveðið að draga hana úr keppni að læknisráði vegna „tilfinningalegs og sálræns ástands“ hennar.