Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfir 200 milljónir hafa greinst með COVID-19

05.08.2021 - 00:48
Mynd með færslu
Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfsfólki alstaðar í heiminum í farsóttinni og ekki að sjá að álagið minnki til muna í bráð Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítalinn
Yfir 200 milljónir manna hafa greinst með COVID-19, samkvæmt gögnum Johns Hopkins-háskólans í Baltimore í Maryland, sem fylgist grannt með framvindu heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Samkvæmt nýjustu tölum þaðan höfðu 200.120.382 greinst með COVID-19 á miðnætti að íslenskum tíma. 4.254.824 höfðu þá dáið úr sjúkdómnum svo staðfest sé. Talið er fullvíst að hvort tveggja smit og dauðsföll séu mun fleiri, en greiningum og gagnasöfnun þar að lútandi er víða afar ábótavant.

Þrjú lönd skera sig úr

Sem fyrr eru Bandaríkin efst á lista yfir hvort tveggja smit og dauðsföll. Þar hafa ríflega 35,3 milljónir greinst með sjúkdóminn og nær 615.000 dáið úr honum. Indland kemur næst á þessum dapurlega lista með tæplega 31,8 milljónir staðfestra smita og 426.000 dauðsföll, en Brasilía kemur þar á eftir með rúmar 20 milljónir smita en mun fleiri dauðsföll en á Indlandi, eða nær 560.000.

Langt er í næstu ríki, Rússland og Frakkland, þar sem tæplega 6,3 milljónir hafa greinst með veiruna í hvoru landi en dauðsföllin skráð 159.000 í Rússlandi og rúm 112.000 í Frakklandi. Á Íslandi hafa 8.353 greinst með COVID-19 frá upphafi faraldursins og 30 dáið úr sjúkdómnum. 

Ný og meira smitandi afbrigði keyra faraldurinn áfram

Nokkuð var farið að hægjast á útbreiðslu veirunnar í byrjun þessa árs en í mars tók hún að aukast á ný, með nýjum og jafnvel meira smitandi afbrigðum frá Bretlandi, Brasilíu, Suður-Afríku og nú síðast því allra smitnæmasta, delta-afbrigðinu frá Indland. Það er einmitt afbrigðið sem grasserar hér á landi um þessar mundir, eins og svo víða annars staðar.

15 prósent Jarðarbúa fullbólusettir

Búið er að gefa hartnær 4,3 milljarða skammta af bóluefnum gegn veirunni til þessa, en af flestum þeirra þarf fólk minnst tvo skammta, til að geta talist fullbólusett. Það á við um 15 prósent heimsbyggðarinnar en um 69 prósent Íslendinga teljast fullbólusettir. Ef aðeins er horft til þeirra sem eru 16 ára og eldri er hlutfall fullbólusettra rúmlega 86 prósent.