Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 150 hús brunnin í skógareldum á Grikklandi

05.08.2021 - 04:32
epa09394097 Residents watch a wildfire burning in the area of Limni in Evia island, eastern coast of Central Greece, 04 August 2021. There was heightened concern regarding the fire in Limni, Evia as conditions of very low visibility kept fire-fighting aircraft grounded early in the morning, as the fire burned on four fronts simultaneously. Two pilots that attempted to fly over the burning area at first light were unable to see well enough to drop water, while a helicopter is now operating in the area.  EPA-EFE/PANAGIOTIS KOUROS
Eyjarskeggjar á Evia bíða björgunar Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Minnst 150 hús hafa þegar eyðilagst í skógareldum á grísku eyjunni Evia. Búið er að rýma fjölda þorpa á eyjunni en munkar í klaustri heilags Davíðs neita að yfirgefa klaustrið. Eldurinn á Evia er einn af yfir 100 skógar- og gróðureldum sem brenna á Grikklandi og ógna meðal annars hinum fornfræga bæ ÓIympíu á Pelópsskaganum. Þá berjast slökkviliðsmenn enn við elda í útjaðri höfuðborgarinnar Aþenu. Hitabylgja er á Grikklandi og Tyrklandi, þar sem eldar loga líka víða.

Eldurinn á Evia brennur heitt og standa eldtungurnar tugi metra upp af trjánum umhverfis Davíðsklaustrið samkvæmt lýsingum munkanna, sem segjast að köfnun komnir vegna reykjarkófsins. Lögregla segir að steðji lífshætta að munkunum verði þeir fluttir frá klaustrinu með valdi, láti þeir ekki segjast.

Breska blaðið The Guardian hefur eftir slökkviliðsmönnum að afar erfitt sé að eiga við eldinn á Evia, þar sem mikið er um hæðir, fjöll og hamra, auk þess sem skyggni er afleitt vegna reyksins. Um 100 slökkviliðsmenn eru að störfum á eyjunni og fá aðstoð úr lofti, þar sem sjö þyrlur og sérhannaðar slökkviflugvélar bera vatn á eldana.