Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja ýmist herða eða halda óbreyttu

Mynd: RÚV / RÚV
Á meðan ríkisstjórnin ræðir við ýmsa hópa og sérfræðinga um sóttvarnaaðgerðir bíður fólk þess sem verða vill. Skiptar skoðanir eru um hvort herða eigi sóttvarnaaðgerðir eða ekki. Þó nokkrir vilja að meira sé gert til að hindra að smit berist inn í landinu, sumir vilja hertar aðgerðir innanlands og aðrir óbreytt ástand.

„Ég vona að það verði hægt að halda samfélaginu að mestu leyti opnu en auðvitað er áhyggjuefni með spítalann og slíkt,“ segir Rakel Brynjólfsdóttir. 

„Mér finnst svo sem grímuskylda ekki vitlaus en mér finnst að það eigi ekki að herða aðgerðir eins og búið er að gera hingað til. Mér finnst þetta alveg nógu hert,“ segir Halldór Árni Þorgrímsson. 

„Mér finnst þetta fínt núna en það mætti herða, ég er ekkert á móti þessu,“ segir Guðný Björk Halldórsdóttir. Þá finnst henni koma til greina að herða fjöldatakmarkanir. 

„Sleppa djamminu kannski. Kannski ekki loka alveg. En eitthvað að reyna að gera öðruvísi því þetta virðist alltaf poppa upp þegar það fer í gang,“ segir Þorbjörg Andrea Aas. 

„Mér finnst að það eigi að halda áfram þessum sóttvörnum sem hafa verið og gæta vel að því sem kemur inn í landið,“ segir Erlingur Hansson.

„Ég vil frekar láta þrengja að landamærunum en hér innanlands,“ segir Alexandra Snorradóttir.

„Mér finnst bara fínt að fylgja því sem þeir sem hafa vit á málinu segja. Ætli það sé ekki best að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis eins mikið og hægt er,“ segir Ísak Bragason. 

Þú bara tekur því sem fyrir þig er lagt?

„Algjörlega,“ segir Ísak. Undir þetta tekur Eyþór Ari, sonur hans: „Já, hann pabbi gerir það bara.“

Pabbi tekur þessu bara en þú?

„Bara vel,“ segir Eyþór.