Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við færumst nær þolmörkum ýmissa kerfa“

05.08.2021 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Átján liggja á Landspítala með COVID-19 og í gær lögðust tveir beint inn á gjörgæslu. Víðir Reynisson segir að upp sé komin ný staða. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir neyðarástand geta skapast á spítalanum haldi þróunin áfram. Nú séu engar hömlur. Undirbúningur þess að bólusetja unglinga á aldrinum 12-15 ára er hafinn. Um helmingur þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví, sem er töluvert hærra hlutfall en síðastliðna daga. 

Þungur tónn á upplýsingafundi

Þungan tón kvað við í upphafsorðum Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns, á upplýsingafundi almannvarna í dag: „Það þyngist heldur staðan, hraður vöxtur þessarar bylgju og dreifing smita um allt land er ný reynsla fyrir okkur, sem betur fer eru bólusetningar að verja okkur að hluta þannig að hlutfall þeirra sem veikjast alvarlega er lægra en áður, það er hins vegar til lítils að horfa til prósentuhlutfalls þegar við erum að tala um líf og heilsu einstaklinga, með auknum fjölda smita fjölgar þeim einstaklingum sem verða alvarlega veikir og þurfa aðstoð með tilheyrandi álagi, við færumst nær þolmörkum ýmissa kerfa,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. 

Spítalinn við neyðarástand

Átján liggja á Landspítala með COVID-19 og í gær lögðust tveir beint inn á gjörgæslu. Þrír liggja nú þar en enginn er í öndunarvél. Talsverður fjöldi af þeim 1400 sem nú njóta þjónustu COVID-göngudeildar Landspítala á á hættu að þurfa að leggjast inn að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra spítalans.  Hann segir spítalann nú við neyðarástand. „Við glímum við erfiðleika við að manna gjörgæslurýmin hjá okkur og við erum búin að fylla A7, smitsjúkdómadeildina, af fólki með COVID-19 og þurfum næst að opna A6, lungnadeildina, það er torvelt því það þarf að útskrifa og færa til annað fólk, það reynist áskorun.“

Af hverju þolir spítalinn ekki meira?

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Hann segir að velta megi fyrir sér hvers vegna 20 innlagnir skapi vanda fyrir 600 rúma spítala. Fyrir því séu nokkrar ástæður. Hinn eiginlegi bráðaspítali sé um 400 rúm, þá sé rúmanýting á bráðadeildum langt yfir alþjóðlegum viðmiðum, 95-105% í stað 85%. „Það má lítið gefa á til þess að það fari að flæða yfir,“ segir Páll. Þá sé samfélagið á fullu, ólíkt því sem gilti í fyrri bylgjum, og því komi upp fleiri slys. Eins og áður séu margir inniliggjandi á bráðadeildum sem hafa lokið meðferð en komast ekki að á hjúkrunarheimilum. Í fyrstu bylgjunni hafi nýtt hjúkrunarheimili á Sléttuvegi aukið svigrúm spítalans til að útskrifa þessa sjúklinga. Páll nefnir líka mannekluna, margt starfsfólk sé nú í sumarfríi, örþreytt að reyna að hlaða batteríin eftir álag síðustu mánaða, og nú sé verið að kalla þetta fólk fyrr inn úr sumarleyfi. Það sé þungbært. 

Toppnum ekki náð og „engar hömlur“

Páll segir spálíkön og fyrri reynslu benda til þess að toppi bylgjunnar sé ekki náð. Delta-afbrigið sé meira smitandi. Þá orðar hann það svo, þrátt fyrir innanlandstakmarkanir og 200 manna samkomubann, að nú séu engar hömlur og það sé nýtt miðað við fyrri bylgjur. „Við megum gera ráð fyrir auknu álagi en hversu miklu er ekki alveg ljóst.“ Hann segir unnið að því í samstarfi við stjórnvöld og nágrannasjúkrahús að ná að útskrifa fleiri og auka þannig svigrúm spítalans til að taka við. Það dugi þó ekki til og hann biðlar því líka til almennings, að taka þátt í því að reyna að fletja kúrfuna. 

Verið að undirbúa bólusetningu unglinga

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, ræddi um bólusetningar. Nú er örvunarbólusetning kennara hafin að fullu, kennarar sem fengu bóluefni Janssen fá örvunarskammt frá Pfizer og á þessu verkefni að ljúka á næstu tveimur vikum. Þá sagði Kamilla að hafinn væri undirbúningur þess að bólusetja börn á aldrinum 12-15 ára, verið sé að finna út úr fyrirkomulaginu og því hvar væri best að bólusetja börnin. Þetta verður auglýst þegar þetta skýrist. 

Þeir sem fengið hafa COVID-19 í sumar þurfa að bíða í þrjá mánuði með að fá örvunarskammt, annars telst bólusetningin ekki gild örvun. Þá segir Kamilla óljóst hvort það ýti undir aukaverkanir að fá skammtinn fljótlega eftir smit. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir